Mar 19, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi



Stundum vakna ég með krullur í augabrúnunum. Og þá tekur mig allt að tvo tíma að koma í veg fyrir að ég fari út í samfélagið eins og þýskur einræðisherra. Og 70 eyrnapinna. Og hálfa dollu af vaselíni. 

Þessir féllu í valinn við brúnabjörgun í morgun. Þegar slíkar björgunaraðgerðir eiga sér stað þá gefst mér ekki tími til þess að næra mig heima. Heldur hoppa ég í 10-11 til þess að næla mér í morgunverð. Þar gríp ég svo auðvitað Hámark og banana. Djók.



Ég verslaði þetta tvennt í morgun. Ekki Hámark. Né banana. Guð á himnum sko. Annað stykkið inniheldur bara Mars-karamelluna. Ég dó. Steindó. Ekki úr offitu eða kransæðastíflu. Heldur hreinni sælu. Bara hreinni alsælu.


Ég er búin að íhuga svo lengi að fleygja mér um borð í Real Techniques bátinn. Taka þátt í þessari förðunarburstamaníu. Og hætta að mála mig með burstum sem ég keypti á 400 kall á Ebay. Fyrir fimm árum. 

Ég átti erfiðan dag í gær. Ruslaði mér inn á ákveðna vefverslun og setti allt í körfu sem mig langaði í. Svona næstum. Æ, ég vorkenndi mér agalega. Lokaði bara augunum og ýtti á kaupa.

Ég er búin að neita mér um þetta drasl í heilt ár. Eða meira. Whatever. Ég ætla að lifa aðeins. Áður en ég byrja að borga af námslánunum. Ég veit ekki einu sinni hversu há þau eru. Þori ekki að athuga. Það verður dagurinn sem ég steindrepst. Ekki úr sælu.


Ég elska kjötbollur. Úr bráðdrepandi kjötfarsi. Og rauðkál. Og kartöflur. Og kjötbollusósu. Ég myndi biðja um þessa máltíð á dauðadeild. Með dálitlu hnetusmjöri.


Það kemur sér svo illa fyrir mig að búa á móti Yoyo-ísbúðinni. Vel fyrir Yoyo. Illa fyrir mig. Bölvuð búllan er staðsett bara hinumegin við götuna. 15 skref. Give or take.

Alltaf skal ég ná að sannfæra mig. ,,Þetta er jógúrtís Guðrún Veiga, jógúrtís – bara eins og að borða loft.“  Svo arka ég af stað. Kem heim með dálítið af ís í dollu. Og sex kíló af Snickersi. Mögulega þrjá pakka af Oreokexi. Og átta Þrista. Ofan á andskotans jógúrtísnum. Að ógleymdri heitu karamellusósunni. Sem innihald dollunnar er löðrandi í.


Verið þið blessaðar Bingókúlur. Við áttum góðan sprett. Það er nýr kóngur í bænum. Fílakúlur, ó boj. Hnausþykkt súkkulaðið, silkimjúk karamellan - má ég bara skríða allsber ofan í þennan poka?

Jæja, ég ætla að þjóta í spinning. Já, ég sagði spinning. 

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment