Helgin hérna í Norðurmýrinni var með rólegasta móti. Fyrir utan þá staðreynd að einhver virðist hafa keyrt á glæsikerruna mína (16 ára gamla Yarisinn) og stungið af. Við látum það nú ekki á okkur fá. Enda skartar Yarri einangrunarlímbandi á fáeinum stöðum nú þegar. Einn kyrfilega teipaður hliðarspegill mun ekki koma að sök.
Ég er dálítið hjátrúarfull. Trúi öllu rugli sem ég hef verið mötuð á í gegnum tíðina. Hræki á svarta ketti og er reglulega með leifar af salti á vinstri öxlinni.
Núna virðist afkvæmið vera einhverskonar Steve Jobs þegar kemur að spilum. Snillingur. Sem merkir að ég fæ skelfilega viðbót við fjölskylduna þegar hann gengur út. Heppinn í spilum, óheppinn í ástum - þið vitið.
Allt í lagi. Steve Jobs er fullgróf samlíking. En hann er fáránlega góður í veiðimann. Ósigrandi. En svo getur líka vel verið að hann sé svindlari. Eins og mamma sín. Sem ég vil að vísu meina að sé ein tegund af snilligáfu.
Þetta er mögulega mjög órökrænn ótti. Sjáum til.
Besti harðfiskur í heimi. Beint úr Kolaportinu. Og miklu meira magn en maður fær í búðunum fyrir sama pening. Hollt og gott líka. Nema þegar maður stútar heilum poka í einu. Eins og ég gerði í gær. Ásamt líter af appelsíni. Sem jafngildir 60 sykurmolum. Að mér skilst.
Ég heimsótti að sjálfsögðu bóksalann minn í Portinu góða einnig. Þessi fór meðal annars með mér heim. Ekki af því að ég hef sérstakan áhuga á danskri tungu, nei.
Heldur fannst mér þetta eitthvað svo ákaflega merkilegt. Kannski er páraði bóksalinn þetta í. Ég veit ekki. Ég ætla bara að leyfa mér að trúa að Gerður Ó. Ísberg hafi fengið þessa bók í jólagjöf árið 1943. Ég nældi mér líka í svo fjári góðan afslátt. Fékk hana á einn rauðan.
Þessar duttu líka í poka. Hús andanna er ein af mínum uppáhalds.
Helgin endaði svo á vöffluveislu. Bingókúlusósa, ís, Nutella og rjómi. Ég nennti ekki að leggja sparistellið á borð fyrir myndatökuna. Ég á það heldur ekki til, ef út í það er farið.
Jæja. Sambíóin bíða mín. Cinderella nánar tiltekið. Já, ég er æsispennt að sjá hana.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment