Mar 30, 2015

Út fyrir þægindarammann


Á einhverjum tímapunkti, fyrir löngu - tók ég allskonar ákvarðanir um hvað fer mér vel og hvað fer mér ekki vel. Ég slétti aldrei á mér hárið. Af því að mér finnst andlitið á mér svo stórt. Og breitt. Og bölvaðar kinnarnar eins og á vel nærðu ungabarni. Ég er ekki nægilega fíngerð fyrir slétta hárið. Að mínu eigin brenglaða mati.

Ég fer aldrei í mittislaus föt. Kjóla eða samfestinga sem ekki hafa einhverskonar teygju í mittið. Af því að mér líður eins og ég sé ekkert nema rassinn í slíkum fatnaði. Það væri mögulega öðruvísi ef ég hefði brjóst til þess að vega aðeins upp á móti. En nei.

Ég er aldrei í öllu svörtu. Svipað og með slétta hárið - mig skortir einhvern fínleika til þess að bera svartan alklæðnað. 


Ég nenni þessu ekki lengur. Ég sé oft falleg mittislaus föt. En kaupi þau aldrei. Ég sé oft konur með fallegt rennislétt hár. En slétti mitt aldrei. Einnig þarf einhver að detta niður dauður ef ég á að versla svartan fatnað.  

Ég er hætt. Hætt þessari vitleysu. Stórkostlega heimskulegir komplexar. Sem eiga við engin rök að styðjast. 

Ég steig eins langt út fyrir þennan bjánalega þægindaramma og mögulegt var um helgina. Slétt hár. Mittislaus kjóll. Og alveg kolsvartur í þokkabót. 



Nei, ókei. Ekki alveg kolsvört. Ég varð að hafa smá lit. Örlítinn. Appelsínugult naglalakk. Ég get ekki verið alveg litlaus. Ég dey. Steindey. 




Þessi sko. Hann getur ekki skilið allar þessar myndatökur. Og af hverju honum er í sífellu bolað út af myndunum. Elsku barnið mitt. Sem ber ekkert skynbragð á aldur minn. Og talar alltaf við mig eins og ég sé eldri en sólin. Eftirfarandi samræður áttu sér stað um helgina:

Afkvæmið: ,,Viltu spila? Spilum Þjóf!"
Ég: ,,Ókei, spilum. Kenndu mér Þjóf."
Afkvæmið: ,,Ég er ekki viss um að konur á þínum aldri geti lært nýtt spil. Komum bara í Veiðmann. Þú kannt hann. 


Ég er meira að segja í mittislausum kjól aftur í dag. Jájá, ég er búin að kaupa mér annan. Ég er að vísu í gulum skóm. Og með krullur út um allt. 

En þið vitið - batnandi fólki er best að lifa. Laust við komplexa. Með sól í hjarta. Amen.  

Heyrumst.


4 comments:

  1. Mér finnst þú mjög fín :)
    Kv. Heiða Rut

    ReplyDelete
  2. smá fullorðinsleg, mjög falleg og fín svona slétthærð í svörtum kjól. Bara ekki gera það að daglegum sið, ert fyndin og sæt skræpótt í öllum litum líka :)

    xoxo H

    ReplyDelete
  3. Þessi færsla fær mann til að hugsa "hvaða komplexa hef ég?" - Mér finnst þínir ástæðulausir, ert svo fín með þetta slétta glansandi hár og í þessum svarta pæjulega kjól!

    Ég ætla að taka þessari færslu sem áskorun, finna komplexana mína og skora þá á hólm!

    Takk fyrir að deila <3

    ReplyDelete