Jæja. Það er föstudagur. Vor í lofti og svona.
Ég er að fara á árshátíð á morgun. Og á engin föt. Eða skó. Eða skartgripi. Og er með tvö hár á hausnum. Sem ekki er hægt að greiða. Að ógleymdri andskotans bólunni sem ég er með - á vörinni, af öllu stöðum. Ég kreisti hana auðvitað. Duglega. Jú og kroppaði í hana. Af mikilli áfergju. Þannig að núna nær hún eiginlega upp að nefi. Sem er stórkostlegt.
Sárið rifnar svo alltaf upp þegar ég hreyfi á mér munninn. Sem er líka stórkostlegt. Þá finn ég blóð leka varlega niður varirnar á mér. Og upp í munn. Ooog ég er hætt.
Fáum okkur kokteil.
Ég henti nýlega öllum krukkunum mínum - þær voru svo andskoti plássfrekar. Þannig að ég dró fram sparistellið fyrir þennan kokteil. Sparistellið sem telur heil tvö glös. Ennþá. Ég verð þrítug á þriðjudaginn. Bind miklar vonir við að stellið stækki lítillega.
Í þessar framkvæmdir þarf:
1 sítrónu
1 lime
1 teskeið sykur
3-4 jarðarber
skvettu af rommi
engiferöl
Setjum sykurinn í spariglasið.
Kreistum hálfa sítrónu og hálft lime út í.
Skerum jarðarberin í sneiðar og köstum þeim ofan í glasið.
Stöppum þetta allt léttilega saman.
Setjum einnig fáeinar sítrónu- og limesneiðar út í blönduna.
Skvetta af rommi. Eftir smekk bara.
Fyllum upp í glasið með ísköldu engiferöli.
Bráðnauðsynlegur sjúss svona í vikulok. Ég segi það satt. Sérstaklega þegar maður á ekki föt, skó eða skartgripi. Og er með bólu. Á bölvaðri vörinni.
Ykkur er velkomið að fylgja mér á bæði Instagram & Snapchat - @gveiga85.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment