Apr 22, 2015

The BIG 3-0


Já. hún er orðin þrítug. 30. Þrjátíu ár búin. Liðin. Ekkert meira tuttugu&eitthvað. Bless og takk. 

Skrýtin tilfinning? Já, örlítið. Aðallega vegna þess að ég hef miklað þetta skref fyrir mér í fjöldamörg ár. Þegar ég var yngri fannst mér fólk í kringum þrítugt vera einhverskonar steinaldarmenn. Fjörgamalt alveg hreint. Og nú er komið að mér. Bráðum fer ég að segja setningar sem hefjast á orðunum ,,í gamla daga..." og ,,þegar ég var ung...". Fer að ræða við börn um sjónvarpslausa fimmtudaga og hvernig á að útbúa heimatilbúin bjúgu. Svona sirka. 

Hvar stend ég svo við þessi tímamót? 

Grá hár: 0
Hrukkur: 13
Brjóst: Svo heppilega vill til að ég tók vart út kynþroska á því svæði. Þarf því litlar áhyggjur að hafa af því að þau fari að leka niður að nærbuxum. 
Andlegt ástand: Í nokkuð góðu jafnvægi. Yfirleitt. Svona oftast.
Líkamlegt ástand: Þarfnast mögulega endurskoðunar. Ég var einmitt að skoða mig allsbera í gær. Eins og maður gerir. Það er þörf á dálítilli stinningu. Svona kalt mat. Ég er eiginlega eins og húðpoki. Húðsekkur jafnvel. Eða eitthvað. 



Afmælisdagurinn sjálfur var svo alveg hreint dásamlegur. 

Ég var á áttunda snooze-i og komin með aðra löppina undan sænginni þegar þessir tveir tilkynntu mér að ég væri ekki að fara fet. Sambýlismaðurinn var búinn að útvega öllum fjölskyldumeðlimum frí í vinnu og skóla. Stór plús í kladdann þar. Risastór. 

Ég lá svo í rúminu eins og skotinn selur þangað til að ég var dregin fram í morgunverð að hætti þeirra feðga. Beikon, Nutella, pylsur - ó, þeir kunna á kransæðarnar í sinni.


Næsta stopp var Skautahöllin. Þar sem ég fékk að dansa um eins og drottning. Látum það liggja á milli hluta hversu tignalegur dans minn var. 


Við maríneruðum okkur í Bláa lóninu í góða þrjá tíma. Og ég þurfti að éta ofan í mig allt það ljóta sem ég hef sagt um lónið. Ég fór síðast í það fyrir tæplega 15 árum. Og virðist hafa orðið fyrir einhverri skelfilegri lífsreynslu - sem ég get bara ómögulega munað eftir. En ég hef borið mikinn kala til Bláa lónsins síðan. Og harðneitað að heimsækja það. 

Nú hyggst ég kaupa mér árskort. Endurnærandi og unaðslegt. Svo við ræðum ekki barinn þarna í miðri laug. Eins og ég hafi hreinlega hannað þetta svæði.

Kvöldið innihélt ómyndaðan snæðing. Já, aldrei slíku vant. Stundum verður maður að leggja frá sér tækjabúnaðinn og njóta.

Þessi þrítugsaldur leggst bara ágætlega í mig.

Heyrumst.

1 comment:

  1. Bakaðar baunir í morgunmat! Kaldar eða hitaðar? Ora eða heinz?
    Ég gæti baðað mig í bökuðum baunum, og haft smá beikon á kantinum.

    ReplyDelete