Apr 27, 2015

H O L L T

Ég átti frekar erfitt með að sofna í gærkvöldi. Af því að það var svo mikil hvítlaukslykt af sænginni minni. Og af hverju var hvítlaukslykt af sængurfötunum mínum? Jú, af því að ég eyddi gærkvöldinu í bólinu með einni svínfeitri og 16 tommu. Beint úr ofninum hjá Dominos. 

Ég vaknaði ennþá södd og í vígahug. Reif utan af rúminu (nei, ég nennti því ekki í gærkvöldi) og ákvað að ég væri hætt að borða rusl. Tilraun 1263, ég veit. Oh, ég veit það svo vel. Ég er svoddan ruslatunna. Stundum. Oftast. Það bara gengur ekki lengur. 

Ég hef ekkert sérstakar áhyggjur af holdafarinu. Meira af heilsunni bara eins og hún leggur sig. Það rennur mjög beikonfitublandað blóð um mínar æðar. 

Ég ætla að taka mig taki. Jú, víst. Sver það. Hætta að rusla öllu sem verður á vegi mínum í ginið á mér. Hugsa fyrst. Borða svo. Eða eitthvað.

Það er ekki króníski mánudagsmegrarinn sem talar. Nei. Nei. Nei. Þetta skal ná lengra en það.


Þessi ágæti mánudagur hefur annars gengið vonum framar. Svona líka. Ég henti í þessar húrrandi fínu hollustukúlur áðan. Svona þegar hin hefðbundna síðdegis súkkulaðiþörf gerði vart við sig. 


Hollustukúlur:

1 bolli haframjöl
2/3 bolli ristaðar kókosflögur (ég notaði kókosmjöl af því ég nennti ekki út í búð)
1/2 bolli hnetusmjör
1/2 bolli hampfræ
1/2 bolli hunang eða agave sýróp
1/4 bolli ósætt kakó
2 matskeiðar chiafræ
1 teskeið vanilludropar



Hrærið allt vel saman. Ég notaði nú bara hendurnar. Með tilheyrandi sóðaskap.

Ef blandan er of þurr má bæta við meira af hunangi.


Leyfið þessu að dúsa í ísskáp í góðan hálftíma áður en þið hnoðið í kúlurnar. 



Þær eru alveg lúmskt góðar þessar. Engar Bingókúlur samt. En nokkuð fullnægjandi. Svona á sinn hátt. 

Ég hugsa að það sé best að ég skrásetji kyrfilega þessa lífsstílsbreytingu. Ykkur er óhætt að bíða spennt eftir frekari fregnum. 

Heyrumst.

1 comment:

  1. Þyrfti að adda þér í Dominosbálkinn á facebook. Þar deilum við skömminni sem fylgir þessum svínfeitu og semjum ljóð um bugunina.

    ReplyDelete