Oct 15, 2013

Ótti.

Ég myndi segja að ég væri frekar óttaslegin manneskja. Ég óttast margt og get haft áhyggjur af furðulegustu hlutum. Og ef ég hef ekki áhyggjur af einhverju þá hef ég áhyggjur af því að það skuli ekkert vera að valda mér áhyggjum. Já. Undarlegt nokk.

Fyrst og fremst óttast ég að sjálfsögðu að eitthvað komi fyrir mína nánustu. Ef fólk svarar mér ekki í síma eða seinkar óvenjulega mikið þá úrskurða ég það iðulega látið. Eða illa slasað. Ég þarf ítrekað fregnir af ferðum allra fjölskyldumeðlima. Og það vita allir að það er skylda að láta mig vita um gang ferðalaga helst á 10 mínútna fresti. Ef vinir eða fjölskylda eru á flakki og ég næ einhverra hluta vegna ekki sambandi við þau þá hangi ég á fréttamiðlum eins og óð kona og bíð fregna af stórslysi. Nú eða mannráni.

Ég var samt verri með þetta þegar ég var yngri. Ég hef örlítið lagast með aldrinum. Held ég.


Trúðar. Sérstaklega þessi hryllingur úr bíómyndinni It. Ég sá hluta af þessari mynd þegar ég var krakki og hef ekki enn beðið þess bætur. Ég man ekki í hvað langan tíma ég kíkti undir rúm og á bakvið hurð þegar ég fór að sofa eftir að þetta viðrini sast að í höfðinu á mér. Ugh. Nei, trúðar eru ekki minn tebolli.

Að fá banvænan sjúkdóm. Ég er afskaplega fær í að greina sjálfa mig með hina og þessa sjúkdóma. Bara á þessu ári hef ég fengið lungakrabbamein, MS, hnút í brjóstið og fáein botlangaköst. Heimilislæknirinn minn tók ekki undir neina af þessum greiningum og bað mig að hætta að gúggla sjúkdómseinkenni. 

Að missa hárið. Ég meina það hefur nú þegar skeð tvisvar. Sálin á mér myndi ekki hafa þriðja skiptið af. Þó þessi skraufþurri strákofi sem ég ber á höfðinu sé mér iðulega til ama þá er hárið samt mín helsta prýði. Ég er ákaflega ljót sköllótt manneskja. Almáttugur.

Myrkrið. Ég er fáránlega myrkfælin. Ég hugsa að það eldist ekki af mér úr þessu. Þegar ég er ein heima þá sef ég með öll ljós kveikt. Já og ég hef kveikt á sjónvarpinu líka. Svo ég heyri ekki í draugunum, þið vitið!

Að svelta. Ég er ofsalega hrædd við að enda einhversstaðar matarlaus. Ég hræðist svengd. Þess vegna geng ég ávallt um með mat í töskunni minni. Og er með leynilegan matarskammt í bílnum ef ég skyldi festast einhversstaðar úti í óbyggðum eða eitthvað. Ég meina - allt getur skeð.

Afkvæmið. Ég hræðist allt sem honum tengist. Ég er alltaf hrædd um að hann fari sér að voða. Jafnvel þó hann sé sofandi. Ég er samt hætt að sniglast í kringum rúmið hans á kvöldin til að athuga hvort hann andi ekki örugglega. Eða já. Ég geri það orðið sárasjaldan. 

Jæja. Nóg í bili.

Heyrumst.

5 comments:

  1. Mér finnst að það ætti að vera bannað að setja svona mynd með færslum, núna endurvaktir þú trúðaótta minn!

    Deili mikið af þessum óttum sem þú skrifar um, og mamma mín er í því að hafa áhyggjur af fólki sem svarar ekki strax - enda köllum við það Tilfinningaskylduna að hringja í hana og láta vita hvað við erum :)

    Skemmtilegt blogg!

    kv.Soffia
    www.skreytumhus.is

    ReplyDelete
  2. *Bara þú ;) ert svo mikið yndi en jú ég vakti börnin mín stundum þegar þau voru pínu lítil bara til að athuga hvor þau önduðu (og trúðu mér það versnar með hækkandi aldri ;)
    kveðja frá Seyðis,
    Halla Dröfn

    ReplyDelete
  3. Ég man mjög vel eftir IT. Árið er 1990. Ég er 19 ára. Dó nærri úr hræðslu!

    ReplyDelete
  4. HAHA va hvað ég tengi við þetta !! nema nokkra hluti, en við getum bara rætt það yfir kokteilum seinna meir ;)

    ReplyDelete