Apr 29, 2014

Að austan í Breiðholtið.

Ég brunaði aftur í Breiðholtið í gær eftir tæplega þriggja vikna dvöl austur á landi. Þriggja vikna dvöl heima.
Já, ég gæti sennilega búið í Breiðholtinu í þrjátíu ár en Austurlandið er ávallt heima. 

Lagið úr Cheers segir allt sem segja þarf - wheeere everybody knows your naaame. 

Allavega. 



Ég fer auðvitað ekki út fyrir bæjarmörk án þess að vera með eitthvað matarkyns í hverju horni. Ég hef jú áður bloggað um krónískan ótta minn við svengd. Þið finnið mig aldrei matarlausa neinsstaðar. Ég er vel nestuð í öllum aðstæðum. 

Undarlega hollt nesti. Mánudagur og svona. Ég er alltaf í megrun á mánudögum. Það er samt súkkulaðistykki þarna undir - ef vel er að gáð.

 Handlóðin já. Ég hef ekki nokkra útskýringu á reiðum höndum. Ég flækist með þau út um allt. Síprentandi út einhverjar upphandleggsæfingar sem ég er alveg að fara að henda í framkvæmd. Lofa sjálfri mér ár eftir ár að þetta verði sumarið sem ég líti vel út á hlýrabol. 

En nei, ég og upphandleggsfánarnir mínir munum víst eyða enn öðru sumrinu saman. 
Upphandleggsfánar - þarfnast það útskýringa? Ef ég stend fyrir framan spegil með hendurnar svona beint út og hristi þær lítillega, þá flagsar húðin á upphandleggjunum svona fram og tilbaka. Eins og fáni í fáeinum vindstigum. 


Ég gleymdi skeið. En sjálfsbjargarviðleitnin - hún bregst mér sjaldan. 



Veðrið á leiðinni var dásamlegt. Fyrir utan þá staðreynd að miðstöðin í Yaris er eitthvað biluð og föst á heitasta blæstri. Á tímbili leið mér eins og ég væri í lopapeysu í miðri Sahara eyðimörkinni. Ég íhugaði um stund að rífa mig úr að ofan. 

Bílar mætast á svoddan hraða að það hefði enginn tekið eftir því. Fólk hefði líka bara haldið að þarna væri síðhærður fermingastrákur undir stýri. Það er ekkert á bringunni á mér sem öskrar að ég sé fullvaxta kona á þrítugsaldri. Ó, nei.


Þar sem er spegill...

Í dag bíður mín verkefni þar sem ég þarf að fara góða 15 kílómetra eða svo út fyrir þægindahringinn. 

Ef vel tekst til get ég sagt frá. Ef ekki - þá mun ég sitja í Breiðholtinu í kvöld og rífa sjálfa mig niður andlega. 
Úff, ég er með hjartslátt alla leið upp í kok í augnablikinu.

Krossið fingur í mína átt. 

Heyrumst.

2 comments:

  1. Ætli þú hefðir ekki frekar verið stoppuð af löggunni ef hún hefði haldið að þú værir fermingastrákur ber að ofan undir stýri heldur en kona á bílprófsaldri, ber að ofan...þá er nú betra að vera ber kona.

    ReplyDelete
  2. Ohh þú ert svo einstök Guðrún mín; ég er reyndar líka svona; alltaf með nesti með mér í bílnum - þó ég sé bara að fara inn í sveit sem tekur um 20 mín. keyrslu.......... aldrei nestislaus - nei nei,. það gæti sko sprungið á bílnum eða hvað af verra !! Ég gæti orðið bensínlaus..... og það á miðri leið.... þá má ég ekki verða matarlaus.... nei alls ekki ;)

    ReplyDelete