May 1, 2014

Instagram.

Ég er voðalega dugleg að taka myndir af því sem ég er að bauka hverju sinni og henda inn á Instagram.


Þetta var staðan í eldhúsinu mínu alltof snemma í morgun. Öll mín uppáhalds hráefni samankomin. Hnetusmjör, beikon, popp og vodka. 


Um hádegisbil mætti svo atvinnuljósmyndari í Breiðholtið. Að mynda matinn minn. Jú og mig. Ótrúlega skemmtilegt allt saman, fyrir mig þó aðallega - ekki ljósmyndarann.  ,,Er ég með undirhöku?"  ,,Sjást hrukkur á enninu?" ,,Þú setur mig ekki með undirhöku í blaðið!" ,,Var undirhaka?" ,,Ég finn ég er með undirhöku - sést hún?" ,,Kom haka - má ég sjá?" 

Vesalings maðurinn þurfti stöðugt að segja mér að fara niður með hausinn af því ég teygði hann svo hátt upp í loft. Allt til að strekkja hökuna sko. 

Ég neitaði líka að setja upp bros. Sannfærði hann um að ég notaði augun en ekki munninn til þess að brosa. Á endanum bað ég um að fá myndavélina og ljúka þessu máli sjálf fyrir framan spegilinn. Hann hafnaði því tilboði mínu.

Ef einhver hefði sagt við foreldra mína fyrir fáeinum árum að ég myndi einn daginn birtast í tímariti undir yfirskriftinni Matgæðingur þá hefðu þau sennilega talið líklegra að ég yrði fyrsta konan til þess að lenda á tunglinu. Þau gætu gefið út heila bók um þær hamfarir sem þau hafa séð af minni hálfu innan veggja eldhússins. 



Þetta er sama kakan sko - á efri myndinni og þeirri neðri. Eini munurinn er að Jói Fel bakaði þessa fyrir ofan og ég hina. Söguna af þessu fíaskói má lesa hérna. Atvik sem fjölskyldan leyfir mér aldrei að gleyma.

Ég hvet ykkur að sjálfsögðu til þess að kaupa 19. tölublað af Vikunni þegar það kemur út. Þar verð ég og býð ykkur meðal annars upp á hnetusmjörs- og beikonsnittur. Ó, já. 


Ég útvarpaði því á Facebook í gær að þessi væri að öllum líkindum á leið í sjónvarpið. Ég get eiginlega lítið sagt ykkur enn sem komið er. Þetta verður sjónvarpsþáttur. Með mér. Nægir það ekki bara?

Ég ætlast til þess að þið smellið einu like hérna - þá getið þið fylgst með þessu ævintýri.


Ég elska bakaðar baunir. Beikon auðvitað líka. Af öllu hjarta. Ekki hafa áhyggjur af baunamagninu. Ég er afar heppin - get borðað heilu dósirnar án þess að þarmarnir í mér veiti því sérstaka athygli.


Endum þetta á þessum litla öðling. Hann hringir stöðugt í mig. Ekki til þess að tala, heldur til að hafa mig í símanum. Harðbannar mér að skella á og leggur símtólið bara frá sér á meðan hann kubbar, borðar eða horfir á teiknimyndir. Athugar annað slagið hvort ég sé ekki örugglega þarna með honum. 

Dásamlegt eintak sem hann er. Þessi litla elska.

Ykkur er velkomið að fylgja mér á Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment