Jan 30, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.



Ég var aðeins á stjákli í Smáralindinni áðan þegar ég datt inn í Megastore. Sennilega eina búðin sem ég hef ráð á að versla í - en það er annað mál. Það eru stundum til svo skemmtileg ilmkerti þar. Eins og til dæmis þetta. Ilmar eins og pönnukökur og sýróp. Dásamlega góð lykt. Núna ligg ég í sófanum og ímynda mér að það sé nakinn skeggjaður karlmaður inni í eldhúsinu mínu að baka pönnukökur. Voðalega notalegt.

Tjah, þangað til ég virkilega fer inn í eldhús og mæti engu öðru en lyktinni af fimm daga gömlu uppvaski. Kannski er lyktin samt ekki af uppvaskinu. Ég hef heldur ekki farið út með ruslið síðan ég varð lasin. En þetta stendur nú allt til bóta. Hvað úr hverju.



Ég fann nú ekki bara pönnuköku- og sýrópskerti í Megastore. Ó, nei. Varasalvi með beikonbragði. Þessu gat ég ekki gengið framhjá. Alls ekki. Ég er meira að segja búin að smyrja honum á mig. Heimili mitt lyktar eins og pönnukökur með sýrópi og ég bragðast eins og beikon. 

Þessi síðasta lína myndi steinliggja í einkamálaauglýsingu. Steinliggja.


Ég var í djúpum vangaveltum í sturtunni í morgun. Ég fyrirlít svo innilega af öllum lífs- og sálarkröftum þegar sturtutjaldið er á einhverri hreyfingu og vill svona inn í sturtuna. Þið vitið? 
Síðan kemur það lengra og lengra inn og límist við mann. Eða snertir mann. Ég get þetta ekki. Ég stökk út úr sturtunni í bræðiskasti í morgun af því þetta var alltaf að eiga sér stað. 

Mögulega reif ég tjaldið niður í kastinu. Mögulega. Einnig er möguleiki á því að tveir kertastjakar hafi orðið reiði minni að bráð. Eða þeir fuku í gólfið þegar ég var að blóta og berja stönginni undan tjaldinu í vegginn. 

Þetta er bara með því verra sem ég lendi í. Ég fæ hroll alveg fram í fingurgóma við það eitt að hugsa um þetta. Ég tala nú ekki um ef maður er í sturtu á hóteli eða til dæmis í verkalýðsíbúð. Sturtutjald sem hefur límst við allskonar allsbert fólk. Nei. Ég get ekki hugsað þetta til enda án þess að ærast.


Nei. Bara nei.

Þetta er stórundarlegt fyrirbæri. Þetta er hvorki Draumur né Rís. Gjörsamlega misheppnuð blanda. Þetta stykki var keypt á sunnudag. Það er einn biti búinn. Súkkulaði sem ég klára ekki er slæmt. Verulega slæmt.



Ég er að fara að keppa á keilumóti prent- og vefmiðla í kvöld. Já ég. Ég hef aldrei spilað keilu. Nei nei. Ég var aðeins að æfa taktana heima í stofu áðan. Þið sjáið einbeitinguna í svipnum.

Listaverkið þarna á bakvið sjónvarpið er ekki á mína ábyrgð. Það skulum við hafa alveg á kristaltæru.




Ég æfði auðvitað sigurdansinn líka. Þó hann verði nú líklega ekki brúkaður í kvöld. Jæja. Það má tapa með sæmd og dansi þá. 

Ég geri ráð fyrir að einhverjar myndir frá þessu ágæta móti muni rata inn á Instagram. Ykkur er að sjálfsögðu velkomið að fylgjast með þar - @gveiga85.

Njótið kvöldsins.

Heyrumst.

4 comments:

  1. búinn að bjarga vikuni hjá mér með þessu takk takk Guðrún

    ReplyDelete
  2. Er með hugmynd í sambandi við tjaldið í sturtunni að fá þér segla og þá er það á sínum stað og lætur þig alveg vera, setja segul á tjaldið og hann sogast við baðið, gangi þér vel í keilu
    kveðja Silley

    ReplyDelete
  3. Hahahaha ég skil þetta svo vel með sturtutjaldið :( Ég varð brjáluð í eitt skiptið og reif það niður ! Sá reyndar eftir því eftir sturtuna þar sem það var bókstaflega ALLT Á FLOTI svo ég neyddist til að setja það upp aftur með fúlum svip ! En takk Silley - ég ætla að prófa þetta með segulinn ;)

    Gangi þér svo vel í keilu í kvöld - þú átt eftir að massa þetta stelpa ;)

    ReplyDelete
  4. bwahahahaha… ég hló bara upphátt..þetta með tjaldið.. .og ohjjjj búið að límast við allskonar annað fólk :D
    EN ég vil ekki trúa því að þetta súkkulaði sé vont, það verður mitt fyrsta verk á laugardaginn að fá mér að smakka svona súkkulaði!! :)

    ReplyDelete