Jan 31, 2014

Aldrei aftur.


Ég ætla aldrei að stíga fæti upp í flugvél aftur. Bara aldrei. Mikið sem ég var með lífið í lúkunum þennan klukkutíma sem tók mig að fljúga austur á land í morgun. 

Vélin var rétt tekin á loft þegar flugstjórinn tilkynnir að beltisljósin verði sennilega kveikt alla leiðina sökum veðurs. Allt í lagi. Ég var róleg. Rólyndi er auðvitað eitt af mínum helstu einkennum. Kippi mér upp við afar fátt og mála skrattann aldrei á vegginn. 

Jæja ókei. Ég var kannski ekkert að kafna úr stóískri ró neitt. Ég á nefnilega mjög erfitt með að vera í aðstæðum sem ég hef ekki fulla stjórn á. Eins og í flugi. Ég er dálítið lífhrædd og finnst óþægilegt að leggja örlög mín í hendur annarra.

Allavega, ég lygni bara aftur augunum með Beyoncé í eyrunum. Örlítill hristingur er byrjaður að eiga sér stað. Ennþá allt í lagi með mig. Allt í góðu. Ég var ekkert byrjuð að hnipra niður erfðaskrána né óskir um jarðarfarasálma eins og ég á stundum til. Svona þegar ég held að ég sé að deyja.

Síðan verður hristingurinn öðruvísi. Vélin tekur að hreyfast í svona dýfukenndum bylgjum einhverskonar. Það þarf því miður ekki mikið til þess að valda mér velgju. Ég verð iðulega bílveik og of snöggar hreyfingar fara í taugarnar á mér.

Þarna sat ég með kreppta hnefa og kyrfilega lokuð augu þegar ég finn að maginn á mér byrjar í einhverri snúningsstarfsemi. Ó, guð minn góður. Var þetta í alvöru að fara að gerast?


Var ég í alvöru að fara að setja poka upp að andlitinu á mér og æla í hann? 
Í flugvél? 
Sitjandi? 
Fyrir framan fólk?

Já. Svarið er já.

Ah. Að sitja kafmáluð, í pels og gubba í poka í klofinu á sér. Það verður ekki settur verðmiði á slíka upplifun.

Ég hef upplifað svo mörg vandræðaleg atvik í gegnum lífið. Að afhenda flugþjóni poka með minni eigin ælu í kemst mjög nærri því að vera það vandræðalegasta. Almáttugur minn. Æluatburðurinn sjálfur skorar líka hátt. 

Síðan sat maður hinum megin við ganginn og var að hlæja að mér. Ég íhugaði svo innilega að kasta í hann pokanum - fullum poka af ælu já. En ég hefði pottþétt hitt í litla krakkann sem sat við hliðina á honum en ekki hann. Þannig að ég ákvað að láta það eiga sig. Ég hreytti hinsvegar í hann fáeinum orðum. Við skulum ekki hafa þau eftir hér. 

Jú og svo var heilt karlkyns körfuboltalið viðstatt þessa sýningu líka. Ég tel hæpið að ég komi til með að byrja með einhverjum úr því liði. Mjög hæpið. 

Góða helgi.

Heyrumst.

3 comments:

  1. Æj jesús minn, skil þessa lífshræðslu svo vel og að láta einhvern "hafa stjórn"!

    kv. Hildur

    ReplyDelete
  2. einu sinni þá ældi ég i ca 6 ælupoka i einni flugferð.... mhm...

    ReplyDelete
  3. Úff ekki skemmtileg lífsreynsla :( En ertu að skrifa ævisöguna þína? Ég er of forvitin og var að reyna að komast að því hvað stendur undir pennanum haha!

    ReplyDelete