Jan 28, 2014

Hvað er að mér?


Þetta er ég. Á læknavaktinni seint í gærkvöldi. Útgrátin sökum eyrnaverkja.
 Ég yfirgaf síðan þessa ágætu vakt, ég er nota bene þeirra helsta tekjulind, með tvennskonar sýklalyf og guðdómlega vel þegið magn verkjalyfja. Sjúkdómsgreining: slæm veirusýking, hálsbólga, kinnholubólgur og svæsin eyrnabólga í báðum eyrum. Sem sagt - veisla. 

Ég var að sjálfsögðu búin að greina mig með krabbamein bæði í hálsi og höfði áður en ég var skoðuð. Ég greini mig nefnilega iðulega með banvæna sjúkdóma. Ókei. Eiginlega í hvert sinn sem ég fæ sting einhversstaðar þá er ég fullviss um að ég sé dauðvona. Mig rekur einmitt minni til þess að mamma hafi kallað mig ímyndunarveika í æsku. 

Allavega, þessi veirusýking mín virðist þó meira en líkamleg. Ég er fullviss um að hún sé sest á heilann í mér líka. Í gær var ég komin alla leið niður í Bankastræti, þar sem ég átti að mæta á fund, þegar ég átta mig á að ég gleymdi að slökkva á kaffivélinni heima í Breiðholti. Sökum þess að umrædd kaffivél er ævaforn og líkleg til íkveikju var ég tilneydd til þess að snúa við. Breiðholt og Bankastræti eru ekkert hlið við hlið neitt. Andskotinn. Ég mætti svo góðum 45 mínútum of seint á fundinn. Aðlaðandi mjög. 

Í gærkvöldi var ég síðan búin að standa í rúmlega klukkutíma í röð á læknavaktinni þegar ég man að ég hafði lagað kaffi eftir kvöldmatinn. Já og ekki slökkt á bévítans vélinni áður en ég þaut út um dyrnar sárkvalin og brjáluð. Ég vil alls ekki bera ábyrgð á að heil raðhúsalengja brenni til grunna þannig að ég fór úr röðinni, brunaði heim og slökkti á fjárans vélinni. Þetta kostaði mig tvo klukkutíma aukalega af bið, væli og ómeðhöndluðum eyrnaverkjum. 

Þessum ömurlega gærdegi er ekki lokið. Nei. Ég ákvað að panta mér flug austur um helgina. Ægilega hamingjusöm og afkvæmið byrjað að telja niður dagana. Ég fer síðan að skoða bókunina mína í morgun og sé að ég á bókað flug frá Egilsstöðum til Reykjavíkur á föstudag. Ekki öfugt. Ég sem sagt bókaði mig í flug frá vitlausum landshluta. Þessu er svo sennilega ekki hægt að breyta nema að ég setji mig á hausinn. Ljómandi. Alveg hreint ljómandi. Hver bara bókar sér flug í slíku hugsunarleysi að hvorki brottfarar né áfangastað er veitt nokkur athygli? Nei. Ég veit ekki.

Stundum langar mig svo virkilega til þess að berja mig. En það myndi sennilega misheppnast. 

Heyrumst.

3 comments:

  1. Litlir Bleikir FílarJanuary 28, 2014 at 3:37 PM

    Fall er faraheilsa eða eitthvað sem mamma mín segir, veit ikke alveg því ég nenni ekki alltaf að hlusta á hana. Eitthvað svona sniðugt sem maður segir.

    Mín ráð til þín
    - fáðu þér pressukönnu
    -horfðu á Girls
    -fáðu þér Primadonna ost (jafnvel með Bingó-kúlu, því ég veit þú kannt að meta tilraunastarfsemi).

    ....rest mun reddast

    ReplyDelete
    Replies
    1. Fall er faraheilsa. Allt í lagi. Roger that.

      Pressukanna. Girls. Einhver ostur.

      On it.

      Delete