Mar 24, 2014

Annars flokks.


Þetta litla skinn þurfti að fara í svæfingu í dag. Litli vesalingurinn minn var með nokkra jaxla sem komu upp glerungslausir og illa farnir. Það þurfti að fjarlægja einhverja og bjarga því sem hægt var. Ég og mitt andlega ójafnvægi tækluðum þessar aðstæður að sjálfsögðu hvorki með sæmd né þokka. 

Það síðasta sem afkvæmið sagði áður en hann sveif inn í draumaheiminn var: ,,mamma, þú verður að hætta að væla alltaf svona - fólk heldur bara að þú sért skrýtin."


Allt gekk þetta nú eins og í sögu. Svona þangað til kom að því að greiða reikninginn. 

Við fórum með afkvæmið í skoðun á síðasta föstudag og fengum kostnaðaráætlun. 300.000 svona sirka. Give or take. Einmitt. Já, ég sagði þrjúhundruðþúsund. Þegar ég fékk heyrnina aftur eftir þessa ágætu tilkynningu spurði ég hvort ekki væri hægt að dreifa þessu eitthvað? Jújú, ekkert mál. 

Ég kom svo upp að afgreiðsluborðinu í dag þar sem mætti mér önnur kona en sú liðlega sem ég hafði átt samskipti við á föstudaginn. Hún gefur mér upp lokatölu - sem var langt á þriðjahundrað þúsund. Meðan ég reyni að hunsa ítrekaðar hjartsláttatruflanir segi ég eitthvað um greiðsludreifingu. Konan horfir á mig eins og ég hafi beðið um að greiða reikninginn með plastflöskum. 

Nú eða hreinlega rifið mig úr fötunum, hent mér upp á borð og boðið henni blíðu mína. 

Eftir langa þögn og gríðarlegt tölvupikk horfir hún á mig yfir gleraugun sín - ,,bíddu, hvað getur þú þá greitt mikið inn á þetta núna?" Ég nefni tölu sem augljóslega var langt frá því sem hún hafði í huga. Ég byrja að afsaka mig - að við hefðum nú greitt fyrir rándýra skoðun á föstudag og verið að enda við að borga fyrir svæfingu. 

Álit hennar á mér leyndi sér ekki. Þarna var ég - annars flokks borgarinn. Konan sem gat ekki staðgreitt tannlæknareikning afkvæmis síns. 

Hún heldur áfram pikkinu á tölvuna. Enda ég greinilega fyrsta manneskjan sem stigið hefur þarna inn og beðið um greiðsludreifingu. 

Hún lítur loks upp á þessa móðurómynd fyrir framan sig og segir ,,þessi upphæð dekkar þá rétt einn lið á reikningnum - hvað heldur þú svo að þú getir mögulega borgað á mánuði?" Aftur nefni ég tölu sem veldur henni velgju. Hún tvöfaldar hana án þess að blikna. ,,Þú greiðir þá þetta. Kemur inn á heimabankann eftir viku. Eða hvað - getur þú kannski ekki borgað það?"

Þarna var ég komin á suðupunkt. Einn af mínum helstu göllum er að ég kann ekki ennþá að vera fullorðinsreið. Ef það er orð. Ég sturlast bara svona eins og unglingsstelpa og segi fokking í öðru hverju orði. Ég þorði hreinlega ekki að hleypa skepnunni út. Skepnan getur vel sagt orð eins og tussa. Nú eða gripið til líkamslegs ofbeldis. Ef hún er reitt nægilega mikið til reiði er voðinn vís.

Ég næ að hemja mig. Skrifa undir einhverja pappíra og er að yfirgefa stofuna þegar nýja vinkona mín kveður mig með þessum ágætu orðum ,,börn þurfa svo sko að fara til tannlæknis á allavega hálfs árs fresti". Enn horfir hún á mig með dásamlegri fyrirlitningu og líkt og ég hafi tannburstað barnið upp úr smjörkremi frá fæðingu. 

Afkvæmið er með glerungsgalla sem talinn er meðfæddur. Nokkrir jaxlar hafa komið upp án glerungs og aðrir illa farnir. Hann hefur verið tannburstaður síðan fyrsta tönn kom upp og farið til tannlæknis reglulega jafn lengi. 

Þegar ég komst loksins út í bíl þá gjörsamlega brotnaði ég niður. Ó, sterki karakterinn hún Guðrún Veiga. Það er alltaf erfitt að horfa á barnið sitt svæft og missa þá stjórn á aðstæðum. Það vita flestar mæður. Þess vegna var ég örlítið í viðkvæmari kantinum þegar ég tókst á við gleðigjafann í afgreiðslunni. 

Æ. Þetta var bara skítt. Það er afar sjaldan sem einhverjum tekst að láta mér líða eins og skólpi. Það hafðist þó í dag. Agnarsmár partur af mér vildi óska þess að ég hefði hleypt skepnunni sem ég get verið út. 

En þá væri þetta sennilega skrifað úr einhverri fangageymslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég kýs nú Breiðholtið fram yfir slíkan dvalarstað.

Heyrumst.

19 comments:

  1. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk getur verið ógeðslega dónalegt!

    Þrátt fyrir samúðarpirring bilaðist ég úr hlátri yfir "Enn horfir hún á mig með dásamlegri fyrirlitningu og líkt og ég hafi tannburstað barnið upp úr smjörkremi frá fæðingu."

    ReplyDelete
  2. Æji... Það verður alltaf til svona taktlaust og dónalegt fólk og lítið hægt að gera við því. Greyi þau að vera svona.

    ReplyDelete
  3. Mér finnst alveg sérstaklega algengt að yngri foreldrar lendi í svona óþolandi dónalegum miðaldra kerlingum sem kunna sig ekki.

    ReplyDelete
  4. úff... ég hefði hleypt skepnunni út !! ég skil hreinlega ekki hvernig þu fórst að því að halda henni inni.. almáttugur !!!

    ReplyDelete
  5. úff... ég hefði hleypt skepnunni út !! ég skil hreinlega ekki hvernig þu fórst að því að halda henni inni.. almáttugur !!!

    ReplyDelete
  6. Ókei, ég hefði TRYLLST úr reiði!! Ég hefði einmitt dottið í fokking í öðru hverju orði, og jafnvel klórað hana. Bara óvart.
    Annars var þetta það fyndið samt að ég las þetta upp fyrir vinkonu mína í kasti.

    ReplyDelete
  7. Mér hefði fundist allt í lagi að spyrja konuna (ekki mjög kurteisislega) hvort henni þætti bara allt í lagi að líta niður á fólk fyrir að eiga ekki mikið af peningum! Hvað þá unga foreldra í námi... pfff!

    ReplyDelete
  8. Ég tel þig sterka að hafa hamið þig... meiri djö dónaskapurinn í þessari kerlingu!
    En þó þetta sé ekki neitt gleðiblogg - hló ég samt - þú nærð að gera allt skemmtilegt!
    Áfram með þig :-)

    Kv. Helga

    ReplyDelete
  9. Ætli konan ì afgreiđslunni hafi veriđ hàtekjumanneskja sjàlf? Þađ er nù varla einusinni à færi "rìkrar" manneskju ađ skella fram 300 kalli bara sìsvona.... nema nàttùrulega peningarnir komi ùr òæđri endanum ;)

    ReplyDelete
  10. Já, já.. fyrir 14 árum var ér tjað að 11 ára dóttir mín þyrfti spengur vegna skakkst bit. Kostnaðaráætlun ca 1-1.2 millur. Minnir að það væri ca árslaunin mín þá. Flúði land, frítt í Norgeslandi undir 18 ára. Sjálf hafði ég ekki Júlíu Robertst tennur og fékk fríar viðgerðir svo langt sem brosið náði. Seinna helltust yfir mig margs konar veikindi, krabbi o. fl. Allt frítt,,meðhöndlun, lyf, öll læknishjálp. Skora á alla þína "groupies" að leggja þér lið. og dekka þetta. Ást og kossar. Sendu mér bankanr. og ég reyni að senda í gang söfnun. Og svo flyturðu til Norge. Kostar ekert að ljúga til Íslands. Áástarkveða...................i.

    ReplyDelete
  11. Þetta er mest óviðeigandi, ófagmannlega "þjónusta" sem ég hef heyrt um - og vona þú sendir kvörtun á yfirmann þessarar stofu. Þetta er þjónusta sem er verið að greiða fyrir, svo hvernig þú háttar greiðslum (sem nb var búið að semja um fyrirfram, með öðrum starfsmanni) er alveg óháð því að þú eigir ekki að fá sömu fagmannlegheit og kurteisi.
    Ekki var þetta tannlæknastofan þarna uppi í Pfaff húsinu á Grensásvegi? (Lenti í hremmingum og dónaskap eftir aðgerð hjá kjálkaskurðlækni þar.)
    Vorkenni þessari konu fyrir að vera svona dómhörð og fyrirlít það að hún telji það viðeigandi að eiga slík orð við foreldra og giska á að þið farið ekki með hann til tannlæknis. Ætti hún ekki að vita betur, vinnandi þarna, að slíkar skemmdir eru ekki sökum lélegri tannhirðu?
    MÉR BLÖSKRAR - og skil vel reiði þína og hefði tekið gelgjupakkann á þetta og notað nokkur ófögur orð og gert persónulega árás á þessa manneskju...

    Dásemd hvað hann sonur þinn er kúl og slakur og með meiri áhyggjur af dramakasti móður sinnar en eigin aðgerð.

    xx Heiðdís

    ReplyDelete
  12. Úff, vildi bara senda þér knús, það er hrikalegt að lenda í svona dónaskap og svo langt frá því að vera það sem maður þarf á að halda í svona stöðu og það á þessi manneskja alveg að vita, þetta er líklega ekki í fyrsta skipti sem einhver er að borga himinháar upphæðir fyrir tannlæknaþjónustu og þarf að skipta greiðslunni upp þannig að manneskjan ætti að vera búin að læra smá mannlegheit (hey, ég hef farið með börnin mín í 20 mín skoðun og fengið áfall yfir reikningnum þannig að ég skil vel að yfir 300.000 fái hjartað til að slá, það er t.d. töluvert mikið meira en kennaralaunin mín á mán:/)...

    En bottomlænið, risaknús á þig og krúttmolann:)

    ReplyDelete
  13. ó guð þú ert best Guðrún Veiga! Ég þekki þig auðvitað ekki neitt en hef lesið bloggið í þónokkurn tíma, hef ófáum sinnum skellt uppúr á lesstofunni öðrum til ama...
    Að öðru, óþolandi hár tannlæknakostnaður og þú átt fullan rétt á að vera pirruð yfir þessari ömurlegu framkomu konunnar.. Mundu bara að þú ert betri en hún! Áfram þú og láttu ekki svona dónaskap slá þig of mikið útaf laginu! :)

    ReplyDelete
  14. nei guð minn almáttugur hvað sumt fólk á bágt! lenti einmitt í svipuðu þegar eg skipti niður visa reikning um daginn og konan lét eins og ég væri algjör aumingi að biðja hana að skipta þessu niður, ég sagði við hana að ég vissi ekki betur en að ég myndi greiða himinháa vexti fyrir að skipta greiðslunum og þetta kæmi henni bara ekkert við!
    og kommentið með að þú ættir að koma með barnið á hálfs árs fresti, þar hefði ég misst kúlið og hjólað í beygluna!

    ReplyDelete
  15. Ömurleg þjónustulund sem þessi ágæta kona hefur, en langaði að deila með þér að ég sjálf er með meðfæddn glerjungsgalla, og hef ég aldrei borgað fullt fyrir viðgerð á mínum tönnum, borgaði ekkert til 18 ára aldurs og svo var ég mjög tekjulá ( á samning) og borgaði bara 25%. Þetta er eitthvað sem tannlæknirinn þarf að sækja um fyrir þig.

    ReplyDelete
  16. Ég fæ bara illt í magann að lesa svona. Mig langar að koma með smá ábendingu. Fyrir nokkrum árum átti ég að fara í endajaxlatöku. Ég byrjaði á að fara til tannlæknis í Grafarvogi því ég gat ekki fengið tíma strax hjá tannlækninum sem ég vildi. Hann skoðaði mig og gaf mér einmitt upp verð um 200.000 kr, svæfing, hálfur dagur í þessa aðger, vikufrí frá vinnu og allt það. Borgaði auðvitað helling fyrir þennan tíma. Mér leist ekkert alltof vel á þetta tilboð hans. En svo hringdi daman frá lækninum sem ég vildi fara til því það losnaði tími. Ég fór til hans, hann sagði: Já gerum þetta núna. Ég fékk deyfingu hann dró þá út, tók nokkrar mín. Borgaði nokkra 10 þúsundkalla fyrir þetta og sagt að ég ætti nú að taka restina af deginum í frí frá vinnu. Ég var í nettu sjokki eftir þetta, sparaði mér fáránlegan pening og svæfingu. Þannig í guðanna bænum ef einhver er á leið í svona aðgerð, fáðu tilboð frá fleiri en einum stað, því þetta er ekkert grín og bara alveg útí hött að ósamræmið megi vera svona svakalegt.

    ReplyDelete
  17. Hér er það sem mér finnst: Ef barn er með augngalla fer það í aðgerð. Foreldrar borga "rúllugjald". Ef barn er með klumbufót - rúllugjald. Hvað sem er - rúllugjald. Tannviðgerð: Borga allt í topp, þetta er nefnilega ekki heilbrigðisþjónusta; þetta er pjatt. En ég meina sko, Kommon! Hvað er að? Tannviðgerðir eiga að vera í kerfinu eins og allt annað!

    ReplyDelete
  18. Và hvad eg tholi ekki svona lid sem dæmir án thess ad vita rassgat! GO thù!!

    ReplyDelete
  19. Tryggingastofnun greiðir (eða stundar e-s konar greiðsluþáttöku) fyrir meðfædda galla. Gangi þér vel.

    ReplyDelete