Þið lásuð rétt. Karamella. Beikon. Poppkorn.
Þetta er stórkostlega undarlegt. Ég játa. En bragðið - almáttugur. Ég myndi alveg setjast í fullt baðkar af þessari dýrð. Með Bubba helst. Auðvitað.
Kryddað karamellubeikonpopp.
5-6 beikonsneiðar.
Einn poki Stjörnupopp. Eða poki af örbylgjupoppi.
1 og 1/2 teskeið matarsódi.
3/4 teskeið Cayenne pipar.
3 bollar af sykri.
3 matskeiðar smjör.
2 teskeiðar sjávarsalt.
1/2 bolli af vatni.
Beikonið er sett í ofn á 200° í 15-20 mínútur.
Eftir dvölina í ofninum er beikonið lagt á pappir til þerris. Mér finnst eldhúspappír óþarfa lúxus og kaupi aldrei slíkan munað. Hinsvegar finnst mér ekkert að því að versla servíettur í allskonar útgáfum. Gáfulegt? Nei. En þær eru bara svo miklu gleðilegri.
Beikonið er skorið í teninga. Það reyndist mér agalega erfitt að vera ekki með lúkurnar stöðugt í skálinni. Helvítis beikon.
Cayenne pipar og matarsóda er blandað saman í litla skál.
Sykurinn, smjörið, saltið og vatnið fer á pönnu og látið malla við háan hita í góðar tíu mínútur. Eða þangað til mixtúran verður ljósbrún.
Cayenne piparnum og matarsódanum er hrært varlega saman við. Þá freyðir svolítið í þessu. En verið óhrædd, það á víst að gerast. Beikonbitunum er skellt saman við strax þar á eftir.
Poppið þarf að standa klárt á ofnplötu og karamellubeikonblöndunni sullað vel og vandlega yfir.
Hræra.
Láta kólna.
Stórundarlegt. Samt svo dásamlega ljúffengt.
Heyrumst.
Ps. Ég varð klökk eftir lesturinn á ummælunum við síðustu færslu. Takk. Meiri grátur var einmitt það sem mig vantaði.
Thetta er yndislega undarlegt! :)
ReplyDeleteTAKK FYRIR Guðrún ÞÚ ERT ÆÐI
ReplyDeleteÞú ert dásamleg! Hverjum öðrum en þér dytti þetta í hug!!
ReplyDeleteMmmmmmmmmmmm....................... þetta ÆTLA ég að prufa en er í lagi að nota venjulegan pipar í staðinn fyrir Cayenne pipar ?? :)
ReplyDeleteViltu upplýsa eins og skot hvar þú nálgaðist þetta guðdómlega útlítandi beikon!!
ReplyDelete