Jan 21, 2014

Augnskaði og viðreynsla í World Class.


Ég var að steikja egg áðan. Það eina sem nokkurn tímann fer á eldavélina í Breiðholti eru egg. Ég elska egg. Í öllum útgáfum. Ég var eitthvað að leyfa olíunni að hitna á pönnunni - Gordon Ramsay segir að olían eigi að vera kraumandi þegar eggin fara út á. Ekki lýgur hann. Gullfallegur maðurinn - já önnur saga. Allavega, ég var eitthvað með nefið yfir pönnunni að gera mig klára að henda eggjunum á þegar það hoppar sjóðandi olíudropi í augað á mér. 

Allt í lagi. Olían var orðin alltof heit af því ég var ekkert að fylgjast með henni. Ég ætlaði bara aðeins að rykmoppa á meðan hún hitnaði. Þá sjaldan. Heppilegt að kveikja ekki í. Ég hef einmitt einu sinni kveikt í olíu af því ég var ekki að fylgjast með henni. Ég fann söguna af því á gamla blogginu mínu:

Ég ætlaði að vera agalega heimilisleg og poppa mér popp í potti á mánudagskvöldið. Skellti olíu í pott og bíð eftir að hún byrji að sjóða. Svo stend ég yfir pottinum og finnst nú eitthvað óvenju mikil gufa koma upp úr honum. Þannig ég tók lokið af og ætla að gægjast aðeins ofan í hann.  Þá sprettur bara upp risa bál beint í fésið á mér. Ég fékk auðvitað taugaáfall, stekk í burtu með sviðnar augabrúnir og potturinn stóð í ljósum logum á eldavélinni og eldurinn í honum alltaf að færast í aukana. Ég næ að grípa í eitt handfangið og henda honum i vaskinn. Þar læt ég renna vatn á hann. Góð hugmynd Guðrún Veiga, að skella vatni á logandi olíu. Nei, ekki lagaðist það.  Þarna var bara komið alveg glimrandi bál í vaskinn og íbúðin orðin full af reyk. Þannig að ég bregð á það ráð að kasta viskustykki yfir hann. Önnur brilliant hugmynd. Auðvitað kveiknaði bara í því líka.

Nóg af þessari sögu. Húsið stóð ennþá eftir þessar hamfarir. Eldhúsið var hinsvegar örlítið laskað. 

Aftur að augnskaðanum. Olíudropinn fór í augað með þeim afleiðingum að núna er það eldrautt og undarlegt. Það lekur líka stanslaust úr því. Ég sé ennþá, það er fyrir mestu. Ég ætla ekki á læknavaktina í tíunda (með tíunda á ég við þriðja) skipti síðan ég flutti hingað út af slysum sem ég veld sjálfri mér. Bara alfarið upp á eigin spýtur. Kemur ekki til greina. Ég nýtist við sólgleraugu þangað til þetta lagast. Af sjálfum sér. Ekki með hjálp læknis. Alls ekki. 

World Class já. Ég er að ljúga með viðreynsluna þarna í titlinum. Vildi bara láta þetta hljóma spennandi. Að þið mynduð halda að ég hefði hitt sveittan fjallmyndarlegan mann og við værum að fara að ríða út í sólarlagið. Á hesti. Ekki mála einhverjar aðrar myndir.

En ég sá samt Tolla Morthens í World Class. Það var það sem ég vildi sagt hafa. Af hverju er ég æst yfir því? Nú af því að hann er bróðir hans Bubba. Það nægir alveg. 

Ég gerði þau mistök að reyna að taka laumulega mynd af honum. Laumulegt er auðvitað ekki til í minni hegðun. Alls ekki. Já. Hann sá til mín. Skelfilega misheppnað augnablik. Skelfilega.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment