Hvað er í boði þetta ljómandi góða föstudagskvöld? Fyrir utan svínfeitu pizzuna sem ég var að torga. Með tvöföldu lagi af pepperoni. Camembert. Gráðaosti. Maísbaunum. Hvítlauksolíu. Já, þið náið þessu.
Karamellukringlur!
Brakandi saltkringlur með mjúkri karamellu. Og fáeinum hnetum. Ó, þetta nasl gerði stormandi lukku. Hjá mér sko. Ég var ein í hlutverki gagnrýnanda og smakkara að þessu sinni. En ég veit nú mínu viti. Við erum öll með það á hreinu.
Karamellukringlur:
1 poki saltkringlur
2 bollar hnetublanda
1/2 bolli sýróp
2 bollar púðursykur
1 bolli smjör
örfá korn af salti
Blandið saman saltkringlum og hnetum í eldfast mót.
Sjóðið sýróp, smjör, púðursykur og salt við vægan hita. Leyfið blöndunni að sjóða í 3-4 mínútur.
Ekki stinga puttanum í blönduna til þess að smakka. Ég tala af biturri reynslu.
Hellið heitri karamellunni yfir kringlu- og hnetumixið.
Hrærið vel og vandlega saman. Gætið þess að hver einasta saltkringla sé þakin karamellu. Jú og hneturnar líka.
Hendið þessu inn í ofn í 20-25 mínútur á 180°. Hrærið einu sinni í herlegheitunum á meðan.
Hellið dýrðinni á bökunarpappír þegar dvölinni í ofninum lýkur. Dreifið vel úr og leyfið að kólna.
Saltkringlurnar verða stökkar í ofninum. Það er draumi líkast þegar mjúk karamellan er komin í sömu sæng. Sæng sem ég get vel unað mér undir.
Annars er ég í helvítis bobba með kanínuna mína. Hún reynir í sífellu að já, ehm, riðlast á fætinum á mér.
Líður þetta tímabil hjá? Þarf ég að finna aðra kanínu handa henni? Leyfa henni að klára sig á á á mééér?
Nei. Ég gat varla skrifað þessa setningu. Oj bara. Ég ætla ekki með sambúð okkar inn á það svið.
Ég er búin að prófa að tæla hana með bangsa. Það virkar ekki.
Jæja. Fáið ykkur karamellukringlur og eigið góða helgi.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment