Það er ekki bara bloggið sem á afmæli núna í október. Ó, nei. Hreinn helmingur af minni ástkæru fjölskyldu á einnig afmælisdag í þessum ágæta mánuði.
Yngsti bróðir minn, Esjar Már, er fæddur þann 22.október 1996. Djöfull sem mér fannst æðri máttarvöld ósanngjörn þann daginn. Ég átti eitt stykki lítinn bróður fyrir. Úff, það sem mér þótti hann nú gjörsamlega með öllu óþolandi. Ég hafði bara ekkert við annan slíkan að gera. Systur mína kunni ég yfirleitt nokkuð vel við. Ég vildi aðra svoleiðis.
Ég var nú samt ekki lengi að taka hann í sátt. Blessaðan angann. Esjar Már er afar vel heppnaður. Með hjarta úr gulli. Þolinmæðin sem hann hefur gagnvart afkvæmi mínu er yfirnáttúruleg. Það er enginn sem leikur við sjö ára frekjuhaus af eins mikilli ljúfmennsku og jafnaðargeði og Esjar.
Ef einhver hefði ætlast til þess að ég léki við eða passaði sjö ára gemling þegar ég var 18 ára. Almáttugur minn. Sá hinn sami hefði aldeilis mátt biðja Guð að hjálpa sér.
Esjar Már er sá eini úr systkinahópnum sem ég hef aldrei lúskrað almennilega á. Að ég held. 11 ára aldursmunurinn hefur sennilega verið honum til happs.
Systir mín á afmæli í dag. Hún er fjórum árum yngri en ég. Samt er yfirleitt eins og hún sé sirka fjörtíu árum eldri. Give or take. Hún er á margan hátt miklu þroskaðari og skynsamari en ég. Hún er kletturinn minn. Sú sem passar að halda mér bæði við efnið og á jörðinni. En hún er líka afar viðkvæm sál með brothætt hjarta. Þá sinni ég klettahlutverkinu af mikilli alúð.
Við erum ferlega ólíkar að eigin mati. Aðrir virðast sjá eitthvað sem við sjáum ekki. Við höfum sama smekk á sælgæti og sjónvarpsefni. Báðar alveg hrottalega frekar en förum leynt með það. Lengra nær það ekki. Að öðru leyti erum við yfirleitt ósammála og stundum liggur við slagsmálum.
Ég er til dæmis talsvert athyglissjúkari en hún. Og hef alltaf verið.
Þegar hún var kornabarn stundaði ég það að klípa hana í leyni. Jájá. Til þess að láta hana fara að grenja. Svo öllum þætti hún leiðinleg. Eftir fjögur ár af óskiptri athygli var ég ekki alveg tilbúin að deila henni með öðrum. Barnið bar þó ekki varanlegan skaða af.
Já, ég er þessi glaðlega lengst til hægri. Systir mín fyrir miðju. Bróðir minn til vinstri - þessi sem var með öllu óþolandi. Alltaf. Merkilegt hvað hann skánaði svo með árunum.
Þó við systur séum ekkert sérstaklega líkar þá erum við mjög nánar. Og höfum alltaf verið. Gjörsamlega ómissandi hluti af hvor annarri.
Ah, svo er það pabbi minn. Hann á afmæli þann 30.október. Hann er á tvíræðum aldri og hefur verið það síðan ég man eftir mér. Ég held hann hafi verið 32ja síðast þegar ég spurði hann. Sem var fyrir stuttu.
Ég hef alla tíð verið mikil pabbastelpa. Það slettist reyndar verulega upp á vinskap okkar eitt árið. Það var bara eitt sjónvarp á heimilinu og þátturinn með Hemma Gunn var sýndur á RÚV á sama tíma og Beverly Hills 90210 var á Stöð 2. Það var meira helvítið. Ég öskrandi og grenjandi. Pabbi sótbrjálaður. Mamma að reyna að stilla til friðar.
Pabbi er sá allra besti. Einfalt mál.
Jæja. Það er sjaldan sem ég hleypi svona yfirgengilegri væmni upp á yfirborðið. Ekki venjast því.
Heyrumst.
svo ég í næsta mánuði .... mér finnst ég eiga skilið smá vænt um þykju líka! bara smá!! bið ekki um meira...
ReplyDelete