Ég og afkvæmi mitt flugum saman suður á þriðjudagskvöldið síðasta. Það er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér að fljúga. Alveg bara alls ekki. Ég hef nú haft orð á því nokkrum sinnum áður - meðal annars hérna.
Að vera í aðstæðum sem ég hef ekki fulla stjórn á er einfaldlega ekki minn tebolli.
Það er hinsvegar fátt sem heillar afkvæmið jafn mikið og flugvélar. Hann er enn svo lítill og saklaus að fyrir honum er hugmyndin um að flugvélin geti hrapað alveg æsispennandi. Bara eins og um sé að ræða hið besta diskótek. Smá fútt í mögulega tíðindalitla flugferð. Ekkert til þess að vera hræddur við. Iss.
Það var ömurlegt veður á Egilsstöðum þegar við fórum í loftið og ókyrrðin eftir því. Ég sat með augun kyrfilega lokuð, orðin blóðlaus í fingrunum og við það að missa saur þegar afkvæmið hefur upp raust sína.
Hann var nota bene skælbrosandi og iðandi sér í takt við ókyrrðina.
Afkvæmi: Þú þarft ekkert að klæða mig í björgunarvestið þegar við hröpum.
Ég: .....ha? Ekki tala. Það er bannað að tala í flugvélum.
Afkvæmi: Nei, ég kann sko alveg að klæða mig sjálfur í það. Þú skalt bara flýta þér í þitt.
Ég: Hættu. Uss. Það er enginn að fara í neitt fjárans björgunarvesti.
Afkvæmi: Nei ekki núna. Bara á eftir.
Ég: Suss. Lestu bókina þína. Eða finndu þér annan sessunaut.
Afkvæmi: Annars þarftu ekkert að fara í vestið...
Ég: Nei ég veit. Við lendum í Reykjavík eftir smástund.
Afkvæmi: ...nei sko, þú deyrð hvort sem er bara strax og þú dettur í sjóinn.
Ég: Valur Elí - ég get svo guðsvarið fyrir það!
Afkvæmi: Bara búmm (klappar saman lófunum með tilheyrandi hávaða) maður dettur svo fast. Búmm. Dáinn.
Einfalt mál. Dettur í sjóinn. Búmm. Dáinn.
Af hverju er ekki boðið upp á áfengi í innanlandsflugi?
Heyrumst.
hahahaha þessi drengur er snillingur!
ReplyDelete