Apr 17, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Afkvæmið heimtaði að fara að veiða um daginn. Ég keyrði með hann í næstu fjöru. Sá var ekki parhrifinn af þeirri hugmynd - samkvæmt honum veiðir fólk ekki í fjörum. Nei. 


Ég ætlaði að sýna honum fram á að það væri helber þvættingur. Ekkert mál að veiða í fjöru. 

Ég tók ljómandi gott kast og festi spúninn. Fyrst hélt ég að sjálfsögðu að ég hefði krækt í fisk og ætlaði aldeilis að sýna afkvæminu í tvo heimana. Mér skjátlaðist örlítið. Það var allt pikkfast. 

Eftir ítrekaðar tilraunir til þess að losa veiðistöngina hófst ég handa við að reyna að slíta girnið. Ekki hafði ég nú handaflið í það. Á þessum tímapunkti var afkvæmið farið að grenja. Ég væri búin að skemma veiðistöngina hans. Rústa öllu. Núna gæti hann aldrei veitt í matinn handa börnunum sínum eða kennt litla stráknum sínum að veiða. Já, elsku dramadrottingin mín má eiga það sem hann á - hann hugsar fram í tímann.

Þetta ævintýri okkar endaði þannig að ég dró megnið af girninu af hjólinu. Sendi afkvæmið með stöngina hálfpartinn út í móa og lét hann halda í hana þar. Ég sast svo undir stýri á bílnum í fjörunni og keyrði yfir girnið aftur og aftur til þess að slíta það. 

Ég frétti svo síðar að það væri lítið mál að bíta girni í sundur. Nú eða nota steinana í fjörunni sér til hjálpar.

Ég hef það á bakvið eyrað í næstu veiðiferð. Með öðru afkvæmi sennilega. Aldrei fer þessi með mér aftur.


Ég er oft spurð að því hvað sé uppáhalds lagið mitt með Bubba. Þið eruð jú mörg hver nokkuð meðvituð um óviðeigandi ást mína í hans garð. Það er orðin gömul saga. 

Uppáhalds lagið mitt er hinsvegar Sem aldrei fyrr. Ég hef elskað það síðan ég heyrði það fyrst. Það var árið 1994. Tuttugu ár. Heil tuttugu ár af óendurgoldinni ást. Ég ætti sennilega að fara að róa á önnur mið.

,,Jú, mig dreymir aðeins þessa einu konu
og allan þennan þokka sem hún ber.
Það er gott að elska og eiga hennar hjarta
því hún tekur mér eins og ég er.
Og ég veit hvar frelsið er að finna
í faðmi hennar það bíður eftir mér."

Ah. Svo fallegt lag. Legg til að þið hlustið. 


Ég og afkvæmið vorum í fjöruferð um daginn. Já við erum voða mikið í fjörunni þessa dagana. Við sáum þennan ágæta fugl.

Afkvæmi: Hey, mamma - hvað heitir þessi fugl?
Ég: Ehh já. Já einmitt. Heyrðu, ertu ekkert að verða svangur?
Afkvæmi: Hvað heitir fuglinn mamma? Veistu ekki neitt?
Ég: Jú auðvitað veit ég það. Þetta er hérna...hérna, p..p...pysja heitir þetta. Já pysja. 

Nei. Ég er ekki alltaf skarpasti hnífurinn í skúffunni. Það er þó búið að leiðrétta þennan misskilning. Við vitum bæði núna að þetta er tjaldur. Pysja er víst lundaungi. Einmitt já.


Það er fátt betra en þessi tvenna. Appelsín í gleri og lakkrísrör. Mmm, þegar appelsínið er búið úr flöskunni og lakkrísrörið orðið hálfsoðið og subbulegt. Namm. 


Uppáhalds jógúrtið mitt. Alla tíð. 


Það er allt betra með hnetusmjöri. Þið þekkið þetta.


Þessi kveður að sinni. Hún er að fara að fá sér rauðvín. 

Heyrumst.

1 comment:

  1. Við systur sitjum hérna með hvítvín að lesa bloggið þitt.. þegar það kom að fugla sögunni þá kafnaði ég næstum og ældi yfir tölvuna, takk fyrir mig!

    ReplyDelete