Jan 12, 2015

KaramelluKrispies.



Jú, ég veit. Það er mánudagur. Það er janúar. Mér er bara alveg sama. Meinlætalíf er leiðinlegt. Hinn gullni meðalvegur er víst fínn. Hef ég heyrt. Ég á að vísu eftir að finna minn. Og reyna að feta hann. En það er önnur saga. Ég ætla að kaupa mér kort í ræktina þegar ég kem til Reykjavíkur. Jú víst. Ég meina það. Ég væri nefnilega dálítið til í tónaða fótleggi. Stundum finnst mér rassinn á mér líka vera farinn að síga. Já, allt allt önnur saga. 

Þetta er gott. Eiginlega alveg ógeðslega gott. Eins óþolandi og mér finnst að nota orðið ógeðslega í tengslum við mat. En stundum er ég tilneydd. Eins og núna.


KaramelluKrispies:

3 stykki Pipp með karamellufyllingu
1 bolli sýróp
1/2 bolli sykur
1 bolli fínt hnetusmjör
6 bollar Rice Krispies
2 pokar af ljósum súkkulaðidropum


Bræðum saman Pippið, sykurinn, sýrópið og hnetusmjörið við vægan hita. Þegar þetta er orðið að silkimjúkri blöndu fær Rice-ið að fjúka saman við. 

Hrærið vel. Mjög vel.


Komum unaðslega klístraðri blöndunni fyrir í eldföstu móti sem klætt er bökunarpappír.



Þjöppum vel og vandlega.


Bræðið súkkulaðidropana og smyrjið yfir þjöppuna. 


Ég vildi smakka dýrðina bæði með ljósu og dökku súkkulaði.

Nei, ókei. Ég er að ljúga. Ég átti bara til tæplega hálfan poka af ljósum súkkulaðidropum. Þannig að ég varð að skítmixa rest. Með bræddum súkkulaðispæni. 



Ljúffengt með eindæmum. Gerði alveg stormandi lukku hérna í dag. Eða hjá mér sko. Það hefur enginn annar smakkað. 

Heyrumst.

2 comments:

  1. afhverju sykur ?? en að nota hunang í staðinn fyrir hvótan sykur * ....

    ReplyDelete