Stundum eyði ég óþarflega miklum tíma í vitleysu. Eins og til dæmis í hangs á Google. Annað veifið slæ ég inn setningar á borð við things to make with red wine. Eða Gordon Ramsay naked. Leitin að því síðara hefur enn ekki borið neinn árangur. Því miður.
Google færir mér hins vegar oft á tíðum hugmyndir að því hvernig ég get sullað með rauðvín. Öðruvísi en að hella því bara í mig.
Það er fimbulkuldi úti þessa dagana. Í slíkri veðráttu er voðalega gott að svolgra í sig bolla af heitu súkkulaði við og við. Ennþá betra ef umrætt súkkulaði er með rauðvínsívafi. Ekki? Jú, ég get svo guðsvarið fyrir það. Miklu betra. Manni hlýnar líka talsvert hraðar. Sem er plús. Og verður aldrei kalt aftur. Aldrei.
Nei, ókei. Nú er ég að ljúga. En súkkulaðið heita er ótrúlega gott. Lofa.
Heitt súkkulaði með rauðvínsívafi:
1 og 1/2 bolli nýmjólk
2 lengjur suðusúkkulaði
2 lengjur rjómasúkkulaði
1 bolli rauðvín
1 dós Coconut Cream
kanill á hnífsoddi
(dugir í 3-4 bolla)
Hellið mjólk í pott. Brjótið tvær lengjur af báðum súkkulaðistykkjunum. Sem sagt átta bita af hvoru. Fleygið þeim í pottinn. Látið malla við góðan hita þar til súkkulaðið bráðnar.
Hellið rauðvíninu saman við. Hrærið vel og vandlega. Þetta á að vera heitt en ekki að sjóða. Ó, lyktin á þessum tímapunkti. Hreinn unaður. Mmm.
Kókosrjóminn er ómissandi með þessum bolla. Ég tæmi dósina í stóra skál og píska innihaldið þar til það er orðið sæmilega þykkt og rjómakennt.
Hella súkkulaðinu í bolla. Toppa með kókosrjóma. Dusta dálítið af kanil yfir herlegheitin. Njóta.
Næstum eins gott og að finna nektarmyndir af Gordon Ramsay. Ég væri eiginlega tilbúin að skipta öllu rauðvíni í heiminum fyrir fáein eintök af slíkum myndum.
Nei, nú er ég að ljúga aftur. Ég get vel notað ímyndunaraflið. Og drukkið rauðvín í leiðinni.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment