Jan 15, 2015

Kveðjupartý.

Samkvæmt venju ætlaði ég að týna til fimm hluti. Það er jú fimmtudagur. En nei, það mun ekki eiga sér stað. Í gær var tölvan mín í hleðslu. Ég gekk á snúruna og við flugum báðar í gólfið. Tölvan slapp með minniháttar meiðsl. Ég með fjólublátt enni. En minniskortið úr myndavélinni minni var í tölvunni. Það dó. Steindó. Fór í spað við skellinn. Það innihélt heilar 8.000 myndir. Þar á meðal fimm hluti á fimmtudegi þessa vikuna. Já og heilt ár úr lífi mínu. Myndir sem ég var hvergi búin að vista. 

Vel gert. Virkilega.

Ég er að sjálfsögðu gjörsamlega miður mín. Bölvað helvítis athugunarleysi. Jæja, nóg af voli. Samt eiginlega ekki. Ég sturlast smávægilega í hvert skipti sem ég leiði hugann að þessu. Og fyllist löngun til þess að kýla mig. Og það fast. Ógeðslega fast. 

Þess má einmitt geta að ég á tvær myndir af afkvæmi mínu nýfæddu. Og sárafáar af fyrstu sjö vikunum hans. Ég kom hundruðum mynda fyrir í einhverri tölvudruslu. Sem datt svo í gólfið einn góðan veðurdag. Auðvitað. Og engu var hægt að bjarga. 

Já, ég er stundum með greindavísitölu á við vínrekka. 


Í dag hélt ég svo ömurlegt partý. Ömurlega sorglegt partý. Ég var að vísu eini syrgjandinn. Hinir voru frekar hressir. Hið umrædda partý var kveðjupartý. Kveðjupartý þar sem afkvæmið sagði bless við vini sína og bekkjarfélaga hérna á Reyðarfirði. Börn sem hann er búinn að þekkja álíka lengi og mig. Svona næstum. Andlit sem hafa mætt okkur á nánast hverjum degi. Í mörg ár. 


Í fullri hreinskilni þá líður mér skringilega. Og ég skil ekkert af hverju. Að vissu leyti finnst mér ég vera að svipta hann einhverju. Eða beygja hann undir mínar þarfir á einhvern hátt. Ég þurfti að draga mig tvisvar í hlé í samkvæminu áðan. Til þess að fara að skæla. 

Ég er fullmeðvituð um að ég er að dramatísera þessa flutninga fram úr öllu hófi. En svona líður mér bara. Það voru 15 krakkar hérna í dag. Sem þekkja hann svo vel. Og hann þekkir svo vel. Og ég bara inni í eldhúsi að skæla ofan í pizzadeigið. Eins og kolbiluð kona. 


Hérna hefur hann alltaf átt heima. Hann þekkir ekkert annað. Æ, mér finnst þetta erfitt. En ég þarf að hrista það af mér. Fólk flytur á hverjum degi. Börn skipta um skóla. Umhverfi. Vini. Og lifa það af. 

Það merkilega er að ég hef ekki nokkrar einustu áhyggjur af honum. Ég er fullviss um að hann á eftir að tækla þessar breytingar með sóma. Það er bara ég sem þarf að girða mig í brók. 


Hann er alveg slakur yfir öllu þessu fári. Boðar bara frið og betri tíma. Aðspurður er hann sko ógeðslega spenntur. En það er bara af því að hann heldur að hann komi til með að hafa búsetu í Skemmtigarðinum í Smáralind. Eða Sambíóunum. 

Ég set punktinn við þessa niðurdrepandi færslu hér. Þetta fer allt vel. Verður frábært. Jafnvel stórkostlegt. 

Heyrumst.

1 comment:

  1. Guð ég skil þig útaf myndunum en þú átt allar þessar minningar í huganum og þar eru þær dýrmætasta. Gangi ykkur vel í bænum !

    ReplyDelete