Jan 14, 2015

Topp fimm: snakkið.

Jæja. Við erum búin að tækla uppáhalds sælgætið mitt - sjá hér. Eins tókum við góða yfirferð á því hvað flýgur ofan í pokann minn þegar ég finn mig óvænt í nálægð við nammibar - sjá hér

Ég fann mig knúna til þess að útlista uppáhalds snakkið mitt einnig. Aðallega vegna þess að þar fékk ég ástæðu til þess að kaupa mér fimm snakkpoka. Í einu. Og opna þá alla. Af því að annars yrðu ljósmyndirnar auðvitað glataðar. Ekkert skemmtilegt að mynda lokaða snakkpoka. Alveg vonlaust.

Eftir á að hyggja var þetta ömurleg hugmynd. Alveg frá A-Ö. Ég er búin að sitja á rassinum í allan dag. Með fituga putta. Að bölva þeirri staðreynd að vera einungis með tvær hendur. Fimm snakkpokar. Tvær hendur. 
Nei, það gengur ekki upp. 




Bónusskrúfur. Með sour cream & onion. Oh, þær eru eitthvað svo loftkenndar og léttar. Stökkar og stórkostlegar. Bráðna bókstaflega á tungunni. Best er að njóta þeirra með Vogaídýfu. Þessari fjólubláu. Með laukbragði. Jú og rauðvíni. Það er ómissandi. 


Svartur Doritos. Ég fæ dásamlegt kitl í magann við það eitt að hugsa um þetta snakk. Svona kitl eins og þegar ég er að njósna um einhvern á Feisbúkk. Og sé að viðkomandi er með galopna síðu. Og ég get snuðrað að vild. Gleypt í mig gamla statusa og ljósmyndir. Nóg um það. Alveg nóg.

Sá svarti er að sjálfsögðu bestur með eðlu. Og rauðvíni. 



Ó, blessuðu bugðurnar. Hnossgæti sem ég elska afar heitt. Fátt betra en að lauma einni á tunguna á sér. Þrýsta henni upp í góminn og finna saltað beikonbragðið smjúga inn í blóðrásina. Mmm. Beikonbugður þurfa enga ídýfu. Bara rauðvínsglas.



Poppsnakk. Eða hvað sem þetta er. Ostabragðið er til þess að deyja fyrir. Sweet Chilli eiginlega líka. Flögurnar eru þykkar og þéttar í sér. Vel kryddaðar og hrein skemmtun að borða þær. Eða bara sleikja. Namm. Engin ídýfa af neinu tagi. Rauðvín eða Pepsi Max dugar.




Að lokum, sigurvegarinn - snakkið sem á bæði sál mína og hjarta. Bugles. Ég elska Bugles. Elska það og elska. Best finnst mér að borða það eins og kanína. Þið vitið, byrja á því að stinga tönnunum í rönd framarlega á Buglesinu. Láta svo Buglesið ganga inn í munninn, rönd eftir rönd. Bíta, bíta, bíta. 

Já, mögulega skiljið þið ekkert hvað ég er að þvaðra. Enda skiptir aðferð mín við Buglesát ykkur sennilega litlu máli. Ég get þó upplýst ykkur um það að Bugles er unaðslegt með sweet chilli Vogaídýfu. Eða hnetusmjöri. Jafnvel rauðvínstári.

Nú þið. Hvurslags snakkpoki fýkur helst í ykkar innkaupakörfu?

Heyrumst.

10 comments:

  1. Grænt lays með sour crem og onion er klassískt, ef ég ætla að eyða aðeins meira kaupi ég KIMS sour cream og onion. Needless to say er það bragð í miklu uppáhaldi, ég þarf greinilega að smakka bónusútgáfuna, sem ég vissi ekki einu sinni að væri til :O

    Annars er nýja snakktegundin sem er til í Bónus, held hún heiti Oly fín sérlega Grill chips með hvítlauksbragði! Mæli meððí!

    ReplyDelete
  2. Þú þarft að prófa svart og sýrðan. Svart doritos og sýrður rjómi, það er góð blanda :)

    ReplyDelete
  3. Þetta er sjúklega gott:
    http://cdn.idealo.com/folder/Product/4456/2/4456225/s1_produktbild_mid/lay-s-deep-ridged-sweet-chilli-147-g.jpg

    ReplyDelete
  4. Prufaðu að setja Philadelfia ost í skál, smyrja chilisultu ofaná hann og borða með svarta doritosinu, þú munt sennilega henda þessari eðlu í ruslið eftir að hafa prufað þetta combo!

    ReplyDelete
  5. miðað við listann þinn ættiru að elska Smash, snakk/nammi sem ég kaupi mér oft heima í Noregi... það er geeeðveikt ! sérð það hérna: https://cdn2.cdnme.se/cdn/7-2/2037825/images/2012/8633_202936046.gif

    ---
    mariaosk.com

    ReplyDelete
  6. Ég eeeeelska fjólublátt Maarud m/ salt og pipar!!!

    ReplyDelete
  7. Lay's Sensations Mexican Peppers & Cream er best...ég er vandræðanlega fljót með einn svoleiðis poka! þetta er orðið vandamál...svo er ekkert grín að finna þetta þar sem þetta er ekki til alls staðar ekki gott fyrir þessa snakkóðu! en svo stendur svart Doritos alltaf fyrir sínu

    ReplyDelete
  8. Takk fyrir yndislegt blogg! Uppáhaldið eru Þykkvabæjar-Rifflur með sýrðum rjóma og lauk, hef ekið höfurborgarsvæðið þvert og endilangt til að útvega þær, alveg þess virði!

    ReplyDelete
  9. Lay's salt snakk með gulu hockey pulver er besta snakk combo sem ég hef smakkað! taste it! :)

    ReplyDelete