Ég er fylgihlutaóð. Ég elska hálsmen, eyrnalokka, hringi, hárbönd, tásuhringi, belti, ökklabönd, töskur - þið skiljið sneiðina.
Einu sinni verslaði ég eitthvað af ofantöldu svo gott sem daglega. Síðan komst ég að því að slíkt er ekki alveg nægilega auðvelt þegar maður býr ekki lengur við tvær innkomur. Neinei, sníða stakk eftir vexti. Sem hefur gengið undarlega vel - merkilegt nokk.
Stundum verður maður þó að leyfa sér. Annað veifið.
Ég fékk mér þetta fína hálsmen frá ShopCouture í síðustu viku. Æ, ég var undir bölvuðu álagi og átti bara allt gott skilið.
Þetta er að vísu þriðja svona hálsmenið sem ég eignast. Ég hef tvisvar pantað samskonar hálsmen af Ebay en tekist að týna þeim báðum. Það greip mig því mikil kátína þegar ég rakst svo á gripinn í íslenskri búð um daginn. Undirrituð á nefnilega ekki Visakort lengur. Nei. Stakkurinn, vöxturinn og allt það. Ekki meira Ebay.
Þetta er bara svo fínt hálsmen. Svo gaman að nota það með fleiri hálsmenum. Hlaða bara nóg á sig. Ég verð seint kölluð mínimalísk þegar kemur að fylgihlutum. Það eru hreinar línur.
Litli glerkuðungurinn fer aldrei af hálsinum á mér. Afi minn heitinn gaf mér þennan grip fyrir löngu síðan og þykir mér alveg agalega vænt um hann.
Jæja. Ég er að hugsa um að byrja í heilsuátaki á morgun. Hversu mikla trú hafið þið á mér?
Enga?
Nei, einmitt. Ekki ég heldur.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment