May 16, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Agalega fínir þessir bollar sem urðu á vegi mínum í gleðskap hjá föðursystur minni um daginn. Ég er svo óttalegur leirtauspervert. Ef ég hefði einhverja glæpamannshæfileika þá ætti hún hvorki bollana né þessa guðdómlegu Steltonkönnu í dag. 




Ó, ég skrapp í Gyllta vin minn í dag. Ég fór sérstaklega til þess að næla mér í föt fyrir auglýsingatökur sem ég fer í á morgun. 

Þessi fíni fíni samfestingur fór með mér heim. Ég þori að hengja mig upp á að þegar móðir mín les þetta fær hún tár í augun. Ekki vegna fegurðar minnar. Nei. Ekki vegna stolts. Ó, nei. Mamma hefur ósjaldan gripið fyrir augun og jafnvel þurft að halda aftur af tárunum þegar ég dressa mig upp. Smekkur minn er fyrirbæri sem er henni með öllu óskiljanlegt. 

Úff, svo tókst mér nú eiginlega að festa mig í þessari múderingu inni í mátunarklefanum. Ég var svona nánast farin að grenja og við það að stjákla fram og segja afgreiðslustelpunum að það þyrfti líklega að klippa fötin utan af mér. Stoltið leyfði þær gjörðir þó ekki. Frekar var ég tilbúin til þess að kippa mér úr axlarlið og vera með krónískan hálsríg að eilífu. 


Æ. Fyrst ég var á annað borð komin í gírinn.


Mig er búið að langa í hvítar gallabuxur alveg afskaplega lengi. Hef aldrei lagt í þær af því afturendinn á mér er jú með sitt eigið póstnúmer. 


Ég er hætt að láta þennan bölvaða rass stýra því hverju ég klæðist. Hann er bara þarna. Verður sennilega alltaf þarna. Mér er skítsama þó ég þurfi að kaupa stærstu buxurnar í búðinni. Skítsama segi ég. 


Um að gera að röfla yfir rassastærð og fá sér svo Oreokex í kvöldmat. 

Fábrotin kvöldmáltíð í Breiðholtinu að venju.



Ég mæli eindregið með þessu trixi. Að nota gaffal til þess að dýfa kexinu í mjólkina. Engir blautir puttar og ekkert kexklínstur undir neglurnar. 

Á morgun tek ég upp auglýsingu fyrir þáttinn minn. Ég er rosalega stressuð - mest stressuð yfir því að ég get eiginlega ekki ákveðið hvaða naglalakk passar best við samfestinginn. 

Almáttugur minn.

Heyrumst.

6 comments:

  1. geggjaður samfestingur.
    Og ég er ekki frá því að ég þurfi að kíkja í Vila á þessar hvítu buxur..... :)

    Hlakka til að vita meira um þáttinn þinn!! Gangi þér vel meðidda :)

    ReplyDelete
  2. Sigrún TraustadóttirMay 16, 2014 at 1:18 PM

    Held að mamma þín hafi sagt upphátt "í hverju er hún núna" :-))))

    ReplyDelete
  3. You saved my day!
    Samfestingurinn er geðveikur

    ReplyDelete
  4. Gangi þér vel !! Fylgist spennt með framhaldinu :)

    ReplyDelete
  5. flottar buxur, væri töff að vera með blómaneglur í stíl við samfestingin, gangi þér vel, hlakka til að sjá auglýsinguna

    ReplyDelete
  6. Æ, elska þig. Þú kemur mér til að hljæga sem ég var búin að gleyma. Sagði þér, krúsin mín, að þú sætir á gullnámu og dáist að hvað það tók stuttan tíma að lyfta sitjandanum með póstnúmerið( dó næstum úr hlátri) og verða heimsfræg á Íslandi. Luv, Gamlan

    ReplyDelete