Feb 20, 2014

Æææ, Guðrún Veiga.

Ég var að koma úr Nettó. Sem er kannski ekki í frásögur færandi. Nema hvað - ég legg bara bílnum, brokka inn, versla dálítið og finn mig svo á bílastæðinu aftur. Legg frá mér pokana og hefst handa við að opna bílinn. En lykilinn fer bara hálfur inn og neitar að snúast. Eftir dálítinn hamagang kem ég honum þó öllum inn en ennþá neitar hann að snúast.

Ég hamaðist og hamaðist. Komin í örlítið panikk og fer að juðast á hurðinni farþegamegin líka. Ekkert gerist. Ég bregð á það ráð að hringja í vin minn og fyrrum sambýlismann til þess að leita ráða. Hann jú var eitt sinn annar eigandi bílsins og átti bara að gjöra svo vel að geta leyst þessi vandræði mín.

Hann bendir mér á að krjúpa og renna lyklinum inn á ská. Sem ég geri. Krýp bara á bílastæðinu hjá Nettó á rennandi blautri jörðinni. Allt í lagi. Þarna voru tárin komin í augun. Enn snýst lykillinn ekki. Þá fæ ég leiðbeiningar um að ýta duglega í hurðina, jafnvel sparka léttilega. Ég hlýði því - stend þarna og sparka í bílinn á milli þess sem ég hendi mér á hann af öllu afli. Nei. Ekkert gerist.

Ég byrja að hamast á skottinu bæði með lyklum og afturenda en allt kemur fyrir ekki. Þarna var ég farin að svona eiginlega grenjuöskra í símann. Þið getið rétt ímyndað ykkur þokkann. ,,Ég þarf að fara í skólann á morgun. Ég get ekki labbbað heim. Það eru svona 20 kílómetrar heim. Ég er í sparijakka. Með þunnum leðurermum. Það er kalt. Guð, ég get ekki sótt barnið á flugvöllinn í næstu viku. Ég kann ekki á strætó. Ég dey. Steindey".

Á þessum tímapunkti var ég komin með ágætis hóp áhorfenda á stæðinu. Í augnablikinu þakka ég Guði fyrir að enginn bauð fram hjálparhönd.

Jæja, ég átta mig skyndilega á því að maður á Reyðarfirði getur sennilega litla björg mér veitt. Ég bregð mér aftur inn í Nettó og stend þar fyrir framan gluggann á meðan ég hringi skælandi í bróður minn. Ég er nýbúin að skella á hann þegar ég lít út um gluggann og sé par með poka gangandi á bílastæðinu. Þau leggja pokana fyrir framan bílinn minn, opna hann, setja inn pokana og keyra í burtu.

Ah, allt í lagi. Þetta var bara ekkert bíllinn minn. Neinei. Honum var lagt allt allt annarsstaðar. Alveg rétt.

Æ, Guðrún Veiga.


Þarna eru lyklarnir komnir í rétta ryðhrúgu. Ég komst auðvitað inn í hann í fyrstu tilraun og er komin heim í Breiðholtið heilu höldnu eftir að hafa hamast á röngum bíl í góðar 20 mínútur.

Ég er auðvitað ekki með öllum mjalla. 

Guði sé lof að enginn bauð fram aðstoð. Ennþá meira má lofa Guð fyrir að ég hafi verið inni í Nettó í símanum þegar parið kom út að bílnum sínum. Ég vil eiginlega ekkert hugsa til viðbragða þeirra ef þau hefðu fundið öskrandi og grenjandi konu sparkandi í bílinn þeirra í stæðinu. Nú eða ef þau hefðu séð til mín á hnjánum fyrir framan hann. Eða þegar ég hoppaði um og kastaði mér utan í bílinn hvað eftir annað. 

Svona uppákomur kalla á rauðvínsglas.

Heyrumst. 

20 comments:

  1. Elsku Guðrún, þú ert algjörlega frábær en þetta gersamlega toppaði allt :)

    Þínir (ó)hamingjudagar gera daga annarra að hamingjudögum.

    ReplyDelete
  2. This comment has been removed by the author.

    ReplyDelete
  3. Þú ert algjör perla :) Ég lenti í þessu um daginn fyrir framan Glerártorgið :) Haha það varð reyndar ekki svona dramatískt en nærri því þó ;) Ég hef svo oft lent í því að setjast upp í vitlausa bíla. Ég settist eitt skiptið upp í bíl og beið eftir vinkonu minni. Nema hún settist inn í allt annan bíl og ég bara eitt spurningarmerki í framan. Ég dreif mig út úr bílnum og settist upp í bílinn hjá vinkonu minni og við hlógum okkur máttlausa. ;)

    ReplyDelete
  4. AhhhhaHahahaha! Þvílíka snilldin! Sko allavega okkur hin sem lesum ;-)

    ReplyDelete
  5. Ég hef svo vandræðalega oft lent í svipuðu atviki með ryðhrúgu yarisinn minn!

    ReplyDelete
  6. Hahahhahaha! Þessi saga vann internetiđ í dag hahahahhaaaaaa jahérnahér!

    ReplyDelete
  7. Frétti af konu sem stakk sér einu sinni inn í rangann bíl og lét þar vaða smá svona prumperí, leit svo á "eiginmanninn" og sá að hún var alls ekki í réttum bíl :)

    Það var verra.....kannski!

    ReplyDelete
  8. hahahaha, hóst, hahahahaha

    ReplyDelete
  9. HAHAHAHA þú drepur mig!!!

    ReplyDelete
  10. Ég kemst alltaf í gott skap við að lesa bloggið þitt! Hahaha þú ert frábær :D

    ReplyDelete
  11. Þetta er besta sem ég hef lesið alla vikuna, mánuðinn jafnvel. Hefði borgað fyrir að sjá þetta atvik + viðbrögð þín þegar parið kom og fór í bílnum sínum.
    Viltu plís klára þetta meistaranám þitt svo þú getir farið að skrifa bók?
    (Hit me up ef þig vantar hugmyndir af titlum, i has pleeenty)

    xx Heiðdís

    ReplyDelete
  12. Haahahahaha neiiiii ég bilast!!

    kv. Hildur

    ReplyDelete
  13. bwahahhahaa..... BESTA sem ég hef lesið á internetinu!!! :D
    -vonandi ertu samt ekki leið að ég sé að hlæja að óförum þínum..... hahaha.... :)

    ReplyDelete
  14. Ó guđ ég bilađist úr hlátri, sko í strætó sem var akkurat ađ renna í Mjóddina viđ lok lesturs, veit ekki hvađ fólkiđ í strætó hefur haldiđ en ég dreif mig út og þá auđvitađ starđi ég á planiđ viđ Nettó og skellti aftur uppúr!
    Þú alveg bjargađir deginum eins og svo oft áđur og ég fer skellihlæhjandi inn í helgina þökk sé þér - sorry veit ađ þađ er ljótt ađ hlægja ađ óförum annarra ;)

    ReplyDelete
  15. Ég biiiiiiilaaaaast! Þetta er of fyndið!

    ReplyDelete
  16. það er fátt sem gleður mann þegar maður þarf að vakna kl 04:30...en þetta gerði daginn minn betri!
    þú átt náttúrulega skilið orðu fyrir klaufaskap haha :)

    ReplyDelete
  17. Ókei, þetta er einum of awesome.

    ReplyDelete
  18. Mikið ertu skemmtileg. Var bara að uppgötva bloggið þitt og búin að vera að lesa það allt saman í 1 go. Þú minnir mig svo mikið á Ömmu mína stundum, við vorum mjög nánar. Hún bjó einmitt í Breiðholti og fór í Breiðholtslaug á hverjum degi til að synda baksund, í neonlituðum eða rósóttum sundbol að sjálfsögðu. Hún var svona dáldið utan við sig og átti það til að læsa bíllyklana inn í bílnum (það var í þá daga) og þurfti þá að hringja í lögguna til fá þá til að brjótast inn í bílinn fyrir sig. Löggan var farin að þekkja hana ansi vel enda margoft hjálpað henni við þessar aðstæður. Eitt skiptið opnuðu þeir framhurðina og Amma hrópar upp fyrir sig "guuuuuð...það er ekki svona áklæði á mínum bíl!" - Góðar stundir.

    ReplyDelete