Dec 19, 2015

Jólaleg lökk


Það hefur ýmislegt breyst síðan ég byrjaði að blogga í lok nóvember 2012. 

Árið 2012 var ég ekki búin að finna svo mikið sem eitt grátt hár. Núna eru þau orðin fleiri en tvö. Jafnvel þrjú. Fann meira að segja eitt í annarri augabrúninni um daginn. Og dó. Bara steindó. Plokkaði nánast af mér helvítis brúnina. 

 Árið 2012 passaði ég í uppáhalds gallabuxurnar mínar. Þær komast ekki yfir rassinn á mér í dag.  

Árið 2012 nennti ég ennþá að raka á mér lappirnar reglulega. Ehm, já. Þau líkamshár hafa verið fjarlægð tvisvar það sem af er þessu ári. Einu sinni fyrir utanlandsferð. Og nú nýlega í annað sinn af því ég þarf að sleikja sambýlismanninn svolítið upp með kynlífi þegar hann kemur í land. Af því ég er hömlulaus kaupalki. Og ég þarf að sefa hann svolítið. Svona áður en við ræðum hvað ég keypti handa mér í jólagjöf. Frá honum sko.

Árið 2012 hefði heldur aldrei hvarflað að mér að vakna fyrir klukkan 10 á laugardagsmorgni til þess að versla miða á Justin Bieber. 

Almáttugur.

Jæja. Nóg um það. Eitt hefur ekki breyst. Og breytist aldrei. 

Ég elska naglalökk. Af öllu hjarta. Sumir fara í jóga til þess að kjarna sig. Eða hugleiðslu. Ég naglalakka mig. Lakka, lakka og lakka. Er að vísu ekkert sérstaklega kjörnuð. En það er allt annar handleggur. 

Ég ferjaði með mér fáein naglalökk úr Fotiu um daginn. 

Og þegar ég segi fáein þá meina ég fjórtán. Eða átján. Já, jájá. Við leggjum misjafnan skilning í orðið fáein. 



Þetta er svo fallegt naglalakk. Svo glansandi fallegt. Og passar við allt. 

Já, ég gerði mitt besta til þess að klippa sárin á fingrunum á mér út af myndunum. Ég er krónískur kroppari eins og ég hef svo oft sagt frá. Og það er mjög ólekker. Mjög. En þó ekki nægilega ólekker til þess að ég hætti að skrapa mitt eigið skinn af höndunum á mér. Nei. 

Ég hætti sennilega ekki fyrr en daginn sem ég missi nögl eða fingur út af svæsinni sýkingu. 

En það er önnur saga. Önnur ógeðsleg saga.





Þetta er dásamlega jólalegt. Sé það vel fyrir mér við rauða jólakjólinn minn. Eða pallíettukjólinn minn. Eða fallegan svartan kjól. Sem ég á ekki til. En þyrfti nauðsynlega að eignast. Svona ef út í það er farið. 



Ég var nýbúin að skarta eldrauðu naglalakki. Og þreif það augljóslega ekki alveg nógu vel af. En ég er bara mannleg sko. Horfið á naglalakkið. Ekki naglaböndin. 




Allt í lagi. Þetta er núll jólalegt lakk. Duly noted. En það er samt flott. Og svolítið áramótlegt. Blátt og glimmerað. Og er rosalega fallegt á hendi. 

Ég er farin að tala eins og ég sé að selja demantshringi.

Jæja.





Þetta er mjög dökkt naglalakk en með flottum fjólubláum blæ. Myndirnar gera því einfaldlega ekki nógu góð skil sko. Aldrei slíku vant.


Plómublær. Geutm við ekki sagt það? 

Naglalakkið ber með sér blæ af vel þroskuðum plómum. 

Hljómar vel, ekki satt?

Já, þetta voru 107 myndir af fingrunum á mér. Njótið vel. 

Ég mæli með eins og einu nýju naglalakki fyrir jólin. Eða átján. Hver er að telja?

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.


No comments:

Post a Comment