Jul 16, 2015

Guðrún Veiga fer í Góða hirðinn



Ég fór í Góða hirðinn í gær. Eingöngu í þeim tilgangi að aðstoða vinkonu mína við fjársjóðsleit. 

Ég var að koma frá útlöndum. Ætla ekki að versla neitt fyrr en 2017. Í fyrsta lagi. Eða já, ég ætlaði ekki að versla neitt. Svona réttara sagt. Höfum þessi fögru fyrirheit í þátíð. Af því þau eru dauð og ómerk. Fokin út um veður og vind. 

Ég tók ekki einu sinni körfu við innganginn. Svo föst stóð ég á mínu. Ætlaði ekki að eyða krónu. Ekki einni. 


Svo fann ég mig allt í einu við bókahillurnar. Sem hafa aldrei verið eins bitastæðar. Áður en ég vissi af stóð ég með tólf bækur í fanginu. Tólf já. Körfulaus og allslaus. Með titrandi tvíhöfða. Af því ég er jú með vöðvastyrk á við hvítvoðung. 


12 bækur á rúmlega 2000 krónur. Slík kaup kallast góð kaup. Ókei, þegar ég segi rúmlega 2000 þá á ég við 2800 sirka. Sambýlismaðurinn er alltaf að tuða yfir þessu. Hvernig ég námunda allt sem ég versla niður að næsta þúsundi. 

Ef ég kaupi eitthvað á 3990 þá segi ég honum að það hafi kostað 3000 kall. Ef ég les vott af pirringi úr andlitinu á honum segi ég rúmlega 2500. Já, ég er roslega flink að námunda. 


Ég er alveg í skýjunum með þessi kaup mín. Í skýjunum segi ég. 

Jæja, ég þarf að vakna eldsnemma. Ég á flug austur á bóginn klukkan 07:30 og þarf að fara á fætur á skikkalegum tíma til þess að moka í mig róandi. Ég ætla ekki að sitja í eigin saur einhversstaðar yfir hálendinu. 

Ég hata innanlandsflug. 

Heyrumst.

Ég er á bæði Snapchat og Instagram - @gveiga85.

No comments:

Post a Comment