Sep 6, 2014

París norðursins.


Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sjá þessa mynd í síðustu viku og verð einfaldlega að fá að mæla með henni. Sunnudagar eru jú ferlega góðir bíódagar.

Hún er pissfyndin (jú það er orð). Óþægileg. Dramatísk á köflum. Manneskjuleg. Raunveruleg. Sorgleg. Hún hefur allt sem góð bíómynd þarf að hafa en er samt svo stórkostlega einföld. Það eru engir afgerandi atburðir í henni. Ekkert brjálað að ske. En samt situr maður alveg límdur. Við það að pissa í sig eða fara að skæla. 

Nú fyrir utan tónlistina. Hvílíkur unaður og algjörlega rúsínan í pysluendanum.

Helgi Björns á stórleik. Að öðrum alveg ólöstuðum. Það er ekki bara ást mín á Helga sem talar. Ég elska hann jú næstum eins mikið og Bubba. Hann fer bara á kostum í hlutverki miðaldra fyllibyttu sem er nýfluttur heim eftir misheppnaðan barrekstur á Tælandi. Hann sest upp á son sinn, Huga (Björn Thors), sem er kennari í litlum bæ á Vesturlandi. Hugi er í einhverskonar felum frá lífinu. Yfirgaf saurlifnaðinn í borginni og er orðinn AA-maður vestur á landi. Þeir feðgar eiga ekki beint samleið og koma þess vegna upp alls kyns kómískar aðstæður. Fyrir utan þá staðreynd að í þorpinu virðist bara búa ein kona. Sem veldur ákveðnum vandkvæðum.


Þetta er mynd þar sem svo auðveldlega er hægt að setja sig í spor sögupersónanna. Það er stundum gaman að vera til. Stundum alveg alls ekki. Þó var eitt sem stuðaði mig. Landsbyggðarhjartað slær auðvitað svo fast í brjósti mér. Í kvikmyndagagnrýni DV segir að það megi velta því fyrir sér hvort umhverfi myndarinnar viðhaldi útjöskuðum staðalímyndum um landsbyggðina. Hvort hún gerir. 

Mjög snemma í myndinni hleypur Björn Thors í gegnum þorpið - það fysta sem ég hugsaði var ,,já ókei - myndin á að gerast 1980 og eitthvað". Eldgamlar bíldruslur í öllum stæðum. Varla malbikaðir vegir. Húsin eins og þau hefðu nýlega staðið af sér fellibyl. Svo sé ég glitta í bílnúmer og átta mig á að myndin á bara að gerast í dag. Úti á landi keyrum við að sjálfsögðu öll um á bílum árgerð 1991, málum aldrei húsin okkar og höfum aldrei séð malbik. 

Æ. Ég er kannski bara að röfla. Þetta stakk mig örlítið. Eins var þetta líka það fyrsta sem systir mín minntist á þegar við gengum út úr bíóinu.  Merkilegt hvernig ,,úti á landi" verður alltaf eins og einhversstaðar í Síberíu í íslenskum kvikmyndum. 

Burtséð frá því. Algjörlega. Myndin er stórskemmtileg og mæli ég innilega með henni. Stórum popppoka líka. 
Og Bingókúlum - þær eru sko bestar í kvikmyndahúsum. Miklu ferskari og mýkri. Já. Ég hef keypt Bingókúlur allsstaðar og veit nákvæmlega hvar þær eru bestar.

Heyrumst fljótlega.


1 comment:

  1. Það er alveg rétt hjá þér með Bingókúlurnar, langa bestar í bíóinu!

    ReplyDelete