Sep 3, 2014

Hinsta kveðja.

Allt í lagi, ekki alveg sú hinsta. En svo gott sem. Ég sit hérna sárþjáð á bæði sál og líkama.

Ég var í myndatöku áðan. Sem er ekki í frásögur færandi nema að ég ákvað að klæðast afskaplega fallegum bol sem leyfir eiginlega ekki þann munað að klæðst sé brjóstahaldara innan undir. Bakið á honum er að miklu leyti blúnda og ljótur brjóstahaldari skemmir bara fyrir. Já ég á bara ljóta brjóstahaldara. Önnur saga.


Gömul mynd af umræddum bol - frá Lísu minni í Level.

Jæja. Ég varð að finna einhverja sómasamlega lausn á þessu brjóstahaldaraleysi. Ekki vildi ég bjóða gestum og gangandi upp á háu ljósin í allri sinni dýrð. Myndatakan fór fram utandyra. Það er orðið kalt í lofti. Þið skiljið sneiðina.

Mig rámaði í að einhver mannvitsbrekkan hefði nú eitt sinn sagt mér að hún teipaði bara á sér brjóstin. Ekkert mál. Maður límir bara yfir þau. Enginn sér neitt. Kannski dreymdi mig þetta. Ég veit það ekki. 

Ég að minnsta kosti sló til. Fann þetta stórfína einangrunarlímband hérna inni í skáp. Þetta silfurlitaða/gráa, þið vitið. Eins og fólk notar til þess að líma upp stuðarann á bílnum sínum og svona. Talsvert sterkara en eitthvað sem notað er á afmælispakka.

Þessu kem ég kyrfilega fyrir á bringunni á mér. Dásamleg lausn. Engin há ljós og ég gat klæðst bolnum mínum skammarlaust.

Ég mun sennilega geta klæðst honum skammarlaust ævina á enda þar sem ég er eiginlega ekki með geirvörtur lengur. Nei, nei. Ég reif þær af með rótum áðan. Guð á himnum. Að ná þessu af? Því verður eiginlega ekki með orðum lýst. Ég lá hérna emjandi og grenjandi. Öskrandi og æpandi. Með einangrunarlímaband á brjóstunum. Bölvandi sjálfri mér og þessari mannvitsbrekku sem líklegast var ímyndun mín. 

Úff og þegar ég brá á það ráð að sækja aceton mér til hjálpar. Ég hefði allt eins getað hellt yfir mig brennisteinssýru og bensíni og andskotans kveikt í mér.

Það er góður klukkutími síðan þetta átti sér stað. Ástandið á bringunni á mér virðist versna með hverju skiptinu sem ég lít ofan í hálsmálið hjá mér. Þar má sjá bláan lit. Grænan lit. Blóðsprungnar æðar og fínerí.

Ef ég lendi á Læknavaktinni af því ég teipaði brjóstin á mér með einangrunarlímbandi þá er þetta mín hinsta kveðja. Í alvöru.

Heyrumst.

Kannski.

12 comments:

  1. HAHAHAH !! Ekki drepa mig !

    Það eru til plástrar/límmiðar í undirfatabúðum sem ég mæli með að eiga inni í skáp til að vera við svona tilefni. Þar er einmitt séð fyrir því að geiran sjálf sé ekki með lími á sér... Algjört must have (en getur samt verið óþægilegt að rífa af, en aldrei eins og einangrunarlímband)

    kv. Bára

    ReplyDelete
    Replies
    1. Ókei. Versla í undirfatabúðum ekki byggingarvöruverslunum. Duly noted! ;-)

      Delete
  2. Vá ég hélt ég myndi deyja úr hlátri við að lesa þetta... vona samt að brjóstin þín munu jafna sig sem fyrst... en einangrunartape whyyy??

    Kveðja,
    María

    ReplyDelete
  3. ónei!!!! hhahaha.....það eru sko til Free bra :)
    farðu nú og settu kalt á tútturnar! :)

    ReplyDelete
  4. Ég grét úr hlátri og er komin með samúðarverk í brjóstin og smá samviskubit yfir því að hlægja af óförum annara.

    ReplyDelete
  5. Hefðir geta farið i heitt bað eða sturtu og tekið límbandid hægt og rólega sama sem mánuður gerir með plástrana :)

    ReplyDelete
  6. Ónei!!!! Hahahahahaha grêt úr hlàtri :)
    ÁstaKr

    ReplyDelete
  7. Haha þú hefur verið að rugla einagrunarteipinu við íþróttateip! Það er fínasta redding, nokkuð sársaukalaus og ódýr í þokkabót! ;)

    ReplyDelete
  8. Dásamlegt takk fyrir að vara okkur við hahaha

    ReplyDelete
  9. I feel your pain sistha! Hef lent í þessu nákvæmlega sama... Mér til varnar var ég ca 18 ára ;) en ég get sagt þér að ég var með límleifar á brjóstunum í einhverjar vikur á eftir! :D

    ReplyDelete
  10. Ef þér dettur einhvern tímann í hug að gera þetta aftur, prófaðu þá smjörlíki á teipið. Kveðja, KOH

    ReplyDelete