Sep 21, 2014

Að blogga.

Ég fæ ótrúlega oft tölvupósta og skilaboð þar sem ég er spurð hvernig eigi að blogga. Tjah, svona inn á milli skilaboðanna frá stórundarlegum einstaklingum sem vilja hjúkra mér og bera á mig krem - well done Guðrún Veiga að viðra þetta á internetinu.

Jæja. Engu að síður - ég er oft beðin um einhverskonar bloggráðleggingar. Hvað þarf til þess að halda úti bloggi og fá fólk til þess að lesa það? 

Nú er ég mögulega að fara að tala út um rassgatið á mér. Ég geri það stundum. Þetta eru alfarið mínar persónulegu skoðanir. Hvernig ég upplifi það að blogga og hvernig best er að fara að því. Aðrir bloggarar gætu vel séð þetta í allt öðru ljósi. 


Að vera einlægur og persónulegur - við eigum bæði góða og slæma daga. Við erum öll mannleg. Höfum okkar kosti og galla. Ef við ætlum að viðra líf okkar á internetinu finnst mér mikilvægt að vera manneskjulegur. Koma til dyranna eins og maður er klæddur hverju sinni. Ekki bara mála sig inn í einhverja glansmynd - hún verður frekar einsleit og leiðinleg til lengdar. 

Það sem ég á við er að lífið er jú upp og niður - ég sem manneskja vil frekar lesa um allskonar daga hjá fólki heldur en endalaust bölvað kjaftæði um hvað lífið sé dásamlegt. Afsakið orðbragðið. Stundum er það dásamlegt. Stundum er það eins og að liggja allsber í holræsi. Með rottur að narta í sig. 

En auðvitað kæra sumir sig ekkert um að tala á persónulegu nótunum og það er vel skiljanlegt. Að sjálfsögðu ræður hver og einn hversu persónulegur hann vill vera á blogginu sínu.

Þetta veltur eiginlega allt saman á því hvaða sviði er bloggað á. 

Ég laðast að minnsta kosti frekar að bloggum þar sem bloggarinn hleypir mér örlítið inn. 
Ég les allskonar blogg - tískublogg, förðunarblogg og matarblogg. Allt eru þetta blogg sem vel geta borið sig án þess að það þurfi að gerast persónulegur. Mér finnst það samt alltaf skemmtilegra. Heimilislegra eiginlega. Mig langar að vita hvaða manneskja er á bak við kökuna, farðann eða fötin. 

Úff, ég tala alltaf svo mikið. Boðskapurinn: ekki vera feik. 

Myndir - þegar ég villist inn á blogg eru myndirnar það fyrsta sem grípur auga mitt. Þær þurfa ekkert að vera stórkostlegar þó mér finnist flestir bloggarar ansi metnaðarfullir þegar kemur að myndatöku. Ég vil bara minn texta með dálítið af myndum. Í fullri hreinskilni þá eru lélegar símamyndir í mörgum tilfellum fráhrindandi. Ég er ekki að segja að það þurfi að eiga 100 þúsund króna myndavél, þvert á móti. Það má taka góðar myndir á flesta síma og allskonar myndavélar. 



Hafa húmor fyrir sjálfum sér - æ, það þýðir ekkert að taka sjálfan sig of alvarlega. Hvorki á blogginu né annarsstaðar.

Gæði umfram magn - það er enginn tilgangur í að drita inn á bloggið bara einhverju bara til þess að blogga. Eins og það sé einhver skylda. Stundum er hægt að framleiða fínar færslur marga daga í röð. Aðra daga er maður með hugmyndarflug á við ljósastaur. Ekkert að ske. Og það er alveg allt í lagi. 

Málfar og stafsetning - ó, boj. Ég er sennilega á leiðinni út á hálan ís. Ég ætla samt að segja það. Lélegt málfar og stafsetningarvillur eru fráhrindandi. Munið - við erum að skoða þetta frá mínum bæjardyrum. Svona hlutir stinga mig í augun. Kannski ekki alla. En mig.

Jújú, við getum öll gert allskonar villur. Sjálf er ég þágufallssjúkari en góðu hófi gegnir. En það er um að gera að vanda sig.

Orðaforði - okkur hættir til að ofnota sum orð. Ég reyni að forðast það eins og ég get en fæ nú samt stundum hroll þegar ég les yfir gamlar færslur og sé orðið bara 412 sinnum í einni klausu. 

Að bæta orðaforðann er líka eitt af mínum sérlega undarlegu áhugamálum. Það geri ég til dæmis með því að lesa minningargreinar upp til agna. Þær eru stútfullar af allskonar orðum. Alveg hreint merkilegt fyrirbæri. 

Þolinmæði - það eignast enginn lesendahóp á einni nóttu. Í fyrstu eru það bara amma manns og mamma sem lesa. Á þessum tíma sem ég hef bloggað hef ég séð ótal blogg verða til og steindeyja stuttu síðar. Þessi iðja getur verið virkilega tímafrek. Erfið. Stressandi. Hundleiðinleg á köflum - prófið að taka myndir í kjallaraíbúð sem er gjörsneydd allri birtu. Andskotinn sko. 

Já - löng saga stutt: vera hreinskilinn, trúr og samkvæmur sjálfum sér. Skrifa um það sem maður hefur áhuga á og gera það vel. Vanda sig í einu og öllu. Muna að Róm var ekki byggð á einni nóttu - eða hvernig sem það orðtak hljómaði nú. 

Að byrja að blogga er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ef þig kitlar í puttana er ekki eftir neinu að bíða. 

Áfram gakk.

Heyrumst.

2 comments:

  1. Einlægt er best. Þá verða verða glansmyndafærslurnar hjá viðkomandi líka miklu skemmtilegri því þær eru hugsanlega virkilegar og gleðja hjartað :)

    ReplyDelete
  2. Svo er líka gg pirr að lesa 1hvern texta sem er fullur af skammstöfum og styttingum. Verð alveg OMG og GMG yfir því að lesa þannig. Er þá sko ekki LOL, eða ROFL!
    YOLO!
    Kv. Magga Dagga

    ReplyDelete