Sep 19, 2014

Bókamarkaður.

Ég elska bækur. Allskonar bækur. Ég safna þeim eins og ég safnaði sælgætisbréfum í gamla daga. Alveg sönn saga. Ég safnaði nammibréfum í lengri tíma en ég ætla að viðurkenna. Svo saumaði ég kjól úr þeim. Jájá. Tók meira að segja þátt í fatahönnunarsamkeppni. Ég man að fólk var mest hissa hver hefði étið allt þetta sælgæti. Jú það var ég. Bara ég. 

En bækurnar já. Ég hef alltaf lesið mikið. Það er hollt að lesa. Hollt fyrir bæði orðaforðann og ímyndunaraflið. Ég er ekki hrifin af fyrirbærum á borð við rafbækur eða Kindle. Hvað sem þetta kallast nú. Ótrúlega lítið sjarmerandi - þó ég geti vel skilið þægindin. Ég vil þukla á blaðsíðum. Finna lyktina. Ah, stilla bókunum upp í hillu. Fátt fegurra. 

Tilgangurinn með þessari færslu var að benda ykkur á dásamlegan bókamarkað hjá Forlaginu sem er í gangi núna. Ég sá einhverja auglýsingu í Mogganum og var mætt á svæðið á núll einni. Svona sirka. Markaðurinn er staðsettur í búð Forlagsins, Fiskislóð 39 nánar tiltekið. Mig minnir að ég hafi lesið að hann sé til 5.október. Sel það samt ekki dýrara en ég keypti það.


Ég er mikil áhugamanneskja um fegurðarsamkeppnir.


Skyndibitar fyrir sálina. Það þarf jú að fóðra hana líka. Svona annað veifið.


Yfirborðskenndar ástarsögur. Jább. Ég er aðdáandi.

Ég á eftir að gera mér fleiri ferðir á þennan markað. Eftir mánaðarmót.

Sniðugt að versla jólagjafir þarna líka. Það er ekkert betra en að fá bók í jólagjöf. Mmm. Makkintoss, mjúkir sokkar og ný bók. Hangikjötslykt. Rjómasósa í munnvikinu. Jólaljós. Heimatilbúið rauðkál. Kakóið hans pabba.   

Ég. Get. Ekki. Beðið.

73 dagar.

Heyrumst.


No comments:

Post a Comment