Sep 15, 2014

Myndataka.


Þegar ég fæ flugur í hausinn, ó þegar ég fæ flugur - hamingjan hjálpi mér. Ég verð bara ekki róleg fyrr en ég næ að hrinda hverju því sem mér dettur í hug í framkvæmd. Stundum kostur. Stundum galli. 

Þessi fluga krafðist nú örlítillar fyrirhafnar. Ég vildi jú vera hálfnakin í baðkari. Fullu af poppi. Úti í guðsgrænni náttúrunni. 


Ég er að ljúga þegar ég segi að ég hafi viljað vera hálfnakin. Ég vildi það ekki neitt. Þarna er verið að reyna að sannfæra mig um að fækka fötum.


Krafðist umhugsunar sko. Ég er svo miklu meiri tepra en ég spila mig. Vinkonur mínar ræða til dæmis aldrei við mig um nein málefni neðan beltis. Hausinn á mér fer bara að snúast í hringi og æla spýjast út um allt. Svona eins og í Exorcist, þið vitið. 


Meira brasið sem þetta var. Baðkarið var alltof stórt og þrátt fyrir að hafa keypt hvert einasta poppkorn í bænum þá dugði það skammt. Við þurftum þess vegna feika hlutina örlítið. Fylla karið af rusli og spila af fingrum fram. 

Myndirnar eru - tjah, misgóðar. Það voru teknar yfir þúsund myndir. Tæplega fjórtán eru nothæfar. Ekki skorti ljósmyndarana hæfileika, ó nei. Ég verð bara alltaf eins og helvítis hobbiti um leið og ég heyri smell í myndavél. Merkilega óþolandi.


Tölfræðin væri þveröfug hefði ég fengið að taka allar myndirnar svona. 

Stórskemmtileg lífsreynsla. Svona þrátt fyrir að ég sé ennþá tilfinningalaus fyrir neðan háls sökum ofkælingar. Jú og finnandi popp á stöðum þar sem enginn ætti að finna popp. Nokkurn tímann. 

Hlakka til að sýna ykkur meira. Seinna. Á allt öðrum stað. 

Heyrumst.

2 comments:

  1. Þú ert voðalega sæt þarna skvís, alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt og gangi þér vel með bókina :)

    ReplyDelete