Sep 18, 2015

Fleiri rendur



Allt í lagi. Hvar á ég að byrja söguna af þessum kjól? 

Sko. Já. Um daginn átti ég innilegar samræður við sambýlismanninn um snakkskálar. Eða um það hversu mikið okkur skortir slíkar skálar. Það er svo helvíti ólekker að hakka alltaf snakkið í sig beint upp úr pokanum. 

Í gærkvöldi sátum við svo hérna við eldhúsborðið. Að snæða fajitas. Sem kemur sögunni ekkert við. Allavega. Sambýlismaðurinn spyr hvort ég geti ekki skroppið fyrir sig og keypt klór. Ég hélt það nú. Kringlan opin til níu og svona. Ekkert mál að skottast fyrir hann í Hagkaup. Kaupa klór. Jafnvel svipast um eftir snakkskál í leiðinni. Svona fyrst ég var á annað borð að fara í Kringluna. Gráupplagt að slá tvær flugur í einu höggi. Eins og mér einni er lagið.

Ég byrja á að koma við í Tiger. Í leit að skálinni sko. Jæja, ég finn afar laglega skál eftir litla leit. Sem kostaði 900 krónur. Ég rökræddi aðeins við sjálfa mig. 900 kall. Lét skálina frá mér. Úff. Ég get alveg kafað með lúkurnar ofan í snakkpokann eitthvað lengur. Níu hundraðkallar fyrir eina skál. Gleymdu þessu. 

Þar með var það afgreitt. Ég legg leið mína í Hagkaup. Með viðkomu í Gallerí 17. Sem ég fer afar sjaldan inn í. Af því ég er mjög langrækin. Og fyrirgef ekki neinum neitt. Ég lenti nefnilega einu sinni í mínu eigin Pretty Woman atviki inni í þessari verslun. Fyrir utan þá staðreynd að ég var 14 ára fermingarstelpa. Ekki vændiskona. 

Löng saga stutt: ég var of þung. Afgreiðslukonan sagði að ég fyndi sennilega ekkert í minni stærð hjá þeim. Ókei, 16 ár síðan. Ég veit. Sumt bara gleymist seint. Eða aldrei. 

Nóg af dramatík. Í gærkvöldi keypti ég ekki klór. Af því ég var viss um að ég gæti fengið hann ódýrari í Bónus. Og það var ekki opið þar þegar ég var á ferðinni. Eins neitaði ég mér um snakkskál á 900 krónur. 

En ég keypti kjól. Ó, svo fínan kjól. Í Gallerí 17. Sem kostaði mig, tjah, tíu snakkskálar. Rétt tæplega.




Já, hann er jafn þægilegur og hann er fallegur. Ef þið voruð að velta því fyrir ykkur.



Það er alltaf ein ristilkrampapósa í hverri myndatöku. Auðvitað. 

Leitt að ég náði ekki mynd af sambýlismanninum þegar ég kom heim eftir Kringluferðina. Ekki með klór. Né snakkskál. Af því ég var að spara. Sú mynd hefði átt heima í ramma.

Eigið góða helgi mín kæru.

Þið finnið mig bæði á Snapchat & Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment