Sep 16, 2015

Þrennt


Ég er ekkert sérstaklega hrifin af ís. Hef aldrei verið neitt óður aðdáandi. Ég er líka með krónískt tannkul. Fer að skæla ef ég dreg andann með opinn munn í minna en 10 stiga hita. Svona næstum. 

Ég get vissulega slafrað í mig öllum ístegundum. Ég er ekkert ómannleg. Ég ét ís ef einhver gefur mér ís. Með góðri lyst. Eins og allt annað ef út í það er farið. Ís er þó eitthvað sem ég kaupi sjaldan sjálfviljug. Nema kannski þegar ég horfi á Keeping Up With the Kardashians. Þá borða ég Yoyo ís. Eins og ég fái borgað fyrir það. Sem ég fæ samt ekki. Þetta er ekki kostað neimdropp. 

Jæja. Hvað um það. Ég er almennt ekki hrifin af ís. Ekki grimmur íshatari, nei. Bara ekki hrifin. Þannig séð. 

Undanfarnar þrjár vikur hefur þó átt sér stað einhver viðsnúningur. Undarlegur viðsnúningur. Ég hef ekki hugsað um annað en ís. Ís. Ís. Ís. Og gert fátt annað en að borða ís. Í öllum útgáfum. Ís er orðinn á pari við stórfenglegar samfarir. Ekki hægt að fá nóg. Skil þetta ekki. 

Í þessu dularfulla ástandi hef ég helst kosið vanilluís. Með viðbótum að eigin vali. Dularfullt ástand er ekki tilvísun í óléttu. Höfum það á hreinu. Held nú síður. Er að drekka rauðvín. Verulega laus við óléttu. Og allt sem henni fylgir. 

Ókei, ég er hætt að blaðra. Að efninu. 

Þetta þrennt hefur verið í uppáhaldi síðan ísfárið mikla hófst: 



Mér skilst að ég sé með þeim síðustu á jarðkringlunni til þess að bragða þessa blöndu. Ís og sterkt Hockey Pulver. Þetta er víst selt í ísbúðum. Já, ég er ekki alltaf með á nótunum. Mér til varnar þá er ég utan af landi. Þar eru engar ísbúðir. Og bara seldur ís í vél á sumrin. 

En þetta er gott. Galdrandi geggjað alveg hreint. Mmm. 


Íssósa búin til úr Rommý. Og já, við ætlum að hunsa þennan skítuga glugga þarna á bak við. Með öllu. Þið sjáið þetta ekki. Hver horfir svo sem út um eldhúsgluggann hjá sér? Ekki ég. Augljóslega.


Bræðum Rommý með rjómaslettu.



Það má vel sleppa andskotans ísnum og drekka bara sósuna. Þvílíkt hnossgæti.


Þá er það rúsínan í pylsuendanum. Hamingjan hjálpi mér. Ís með beikonkaramellu. Nei, ekki hætta að lesa. Þetta er yfirnáttúruleg blanda. Ástaratlot við bragðlaukana. 

Ég. Sver. Það.


Fleygið 4-5 beikonsneiðum inn í ofn á 200° í 15-20 mínútur. Leyfið því að kólna. Saxið smátt.


Fleygið eftirfarandi á pönnu:

1 1/2 bolli sykur
1 1/2 msk smjör
1 tsk salt
1/4 bolli vatn

Látið krauma við háan hita í tæplega 10 mínútur - eða þangað til blandan verður ljósbrún. Smellið beikoninu saman við og skvettið yfir fulla skál af ís. 


Karmellan verður stökk. Ah, að bryðja hana með mjúkum ísnum. Það eru engin orð. Sálin syngur. Lífið tekur nýjan lit. Ég elska beikon. Elska það. 

Og ís. Í augnablikinu.

Heyrumst.

10 comments:

  1. This comment has been removed by the author.

    ReplyDelete
  2. Þú hreinlega verður að fara í Ísbúðina Huppu og smakka ís með Hockey Pulver dýfu (og daim ef þú ert daim-kona).. HIMNESKT

    ReplyDelete
  3. Ís með Hockeydufti og hindberjum, það er sko geðveikt.

    ReplyDelete
  4. Fjandinn ég verð að smakka þessa ROMMÝSÓSU!

    ReplyDelete
  5. Allra versti galli við ísbúðir landsins er að bjóða ekki uppá rommý, því t.d bragðarefur með rommý og jarðaberjum og jafnvel þrist er klassi. Hver vill ekki smá frosið rommý??
    Rommý er sennilega vanmetnasta sælgæti sem til er, best í heimi en fær ekki þá hylli sem það á skilið... sverþað!!

    ReplyDelete
  6. Hvaða naglalakk ertu með??? er það þetta? http://www.fotia.is/products/gnp-28-coconut verð að fá það

    ReplyDelete