Nov 28, 2012

Uppáhalds í prófatíð.



Þegar lífið snýst um prófalestur er ákaflega mikilvægt að skipta út eðlilegum kaffibolla fyrir risakaffibolla. Þetta er uppáhalds próflestrarbollinn minn. Þessi bolli er samt held ég upphaflega ætlaður undir súpu. En það skiptir ekki öllu - málið er að hann tekur við fimmföldu magni á við venjulegan kaffibolla. Það er þó ekki í miklu uppáhaldi að drekka of marga svona. Stundum er ég farin að þjást af hjartsláttartruflunum í kringum kvöldmatartíma ef þessi elska hefur verið brúkaður of mikið. 


Þegar ég er ekki að svolgra í mig kaffi þá drekk ég kók. Mikið af kóki. Og það verður að vera úr dós, Annað væri hneisa!


Það á enginn að fara í gegnum prófatíð án þess að smjatta á nokkrum svona pokum! Bingókúlur eru bestar. Ég set alltaf svona 4-6 kúlur upp í mig í einu - þess má geta að neysla þeirra fer fram í leyni. Ég vil auðvitað alls ekki að sambýlismaðurinn sjái hvernig ég lít út þegar ég er búin að troða fullri lúku af kúlum í andlitið á mér. Hann hefur séð mig eiga barn en hann má alls ekki sjá mig borða Bingókúlur. 


Þegar ég er komin með illt í tennurnar af Bingókúluáti þá tekur þessi dásemd við. Ég elska þetta tyggjó. Ég fer með fjóra til fimm pakka á góðum degi. Það er hið mesta kraftaverk að ég skuli yfir höfuð haldast í kjálkalið þessa dagana. 


Síðast en ekki síst - varasalvi! Nóg af varasalva. Ég get ómögulega einbeitt mér nema að varirnar á mér séu vel smurðar. Kannski þess vegna sem ég er alltaf með krónískan varaþurrk. 

Ég neita að hlusta á einhvern þvætting um að borða bara hollt og gott á meðan maður lærir fyrir próf. Nóg af kaffi, kóki og Bingókúlum og ég er klár í slaginn!


No comments:

Post a Comment