Nov 30, 2012

Eplakaka fyrir eldhúshamlaða.

Ég fann agalega einfalda uppskrift af eplaköku áðan. Bara fjögur hráefni - passlega mikið fyrir minn litla eldhúsheila. Þessi útgáfa af eplaköku er nú líka dálítið hollari en sú hefðbundna. Það er að minnsta kosti ekkert bras með smjör eða olíu í þessari uppskrift.


Eplakaka.

3 epli - ég notaði tvö græn og eitt rautt
3 egg
1 bolli hveiti
1 bolli sykur - ég notaði hrásykur, einungis til þess að telja samviskunni trú um að kakan sé meinholl

Ofninn er hitaður í 200°. Eplin skorin gróft niður. Eggjum, sykri og hveiti er hrært vel saman. Eplum hent út í. Skellt í form - samkvæmt uppskriftinni er best að nota 20 cm hringform en ég átti það að sjálfsögðu ekki til. Kakan er bökuð í 20 mínútur við 200° svo er hitinn lækkaður niður í 160° og kökunni leyft að malla í 20 mínútur í viðbót. Hún gæti þó þurft pínulítið lengri tíma - hún á að vera blaut en samt ekki hrá. Það er fínt að pota í miðjuna á henni með tannstöngli þegar bökunartímanum er lokið. Mín var inni í rúmlega 45 mínútur.

Stórfín kaka get ég sagt ykkur. Það voru tvær veglegar sneiðar í hádegismat á þessu heimili. Verst að það var ekki til vanilluís með - það hefði nú alveg verið draumur!



No comments:

Post a Comment