May 16, 2015

Laugardagslokan


Ég er að lepja dauðann úr skel hérna. Í orðsins fyllstu. Ég er með kvef upp í enni. Missi dálitla heyrn í hvert skipti sem ég snýti mér. Pissa aðeins í mig við hvern hnerra. Og ber orðið mikla virðingu fyrir svokölluðum eyrnabörnum. Þetta er eins og að vera með tannpínu í eyrunum. Andskotinn hafi það.

Ég reyndi við óhefðbundnar lækningar hérna í gærkvöldi. Sauð saman baneitraða hvítlauksolíu og hellti henni inn í eyrun á mér. Vel spilað. Ég lykta eins og úldið hvítlauksbrauð. Sem búið er að liggja í ruslatunnu í 12 daga. Koddinn minn lyktar eins. Og sængin. Og svefnherbergið almennt. 

Afkvæmið neitar að koma nálægt mér af því það er fýla af mér. 

Þetta kukl mitt bar nota bene engan árangur. 


Mig langaði í snakk í morgunmat. Af því ég er lasin. Og vorkenni mér meira en orð fá lýst. 

Mér fannst samt skrambi langt gengið að éta það beint upp úr pokanum. Allt í lagi, borða það beint upp úr pokanum. Whatever. Þannig að ég tróð því inn í samloku. Sem var gott. Hrikalega gott. 

Þetta er einfalt. 2 brauðsneiðar. Skinka. Ostur. Snakk að eigin vali. Mitt var með grillbragði. Mmm. 




Raða öllu hráefni vel og vandlega. Borða fimm flögur eða svo. 


Nóg af snakki. Af því ég er lasin. Og það er laugardagur.


Já, ég er vísvitandi að troða puttunum á mér inn á allar myndirnar. Ég er með svo fínt naglalakk.


Ég á ekki samlokujárn.


Nei, ég nennti ekki að þrífa vöfflujárnið áður en ég brúkaði það. Ég er lasin. 



Stórkostleg loka. Stökkt snakk löðrandi í osti og unaði. 

Gott, gott, gott. 

Jæja. Ég ætla í bað. Áður en afkvæmið lætur mig flytja búferlum út í kofann sem er í garðinum. 

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment