May 12, 2015

Fallegasta. Flík. Í. Heimi.


Já. Hún er fundin. Fallegasta flík í heimi. Fagurt hlébarðamynstur, fáein blóm og fullt af litum. 

Ég þurfti nánast skyndihjálp þegar við hittumst fyrst. Það slapp þó blessunarlega til. Enda enginn hér til þess að veita mér nokkra lífsbjörg. Afkvæmi mitt er svo utan við sig að hann tæki ekki eftir því þó að 17 villtir hestar myndu jafna mig við jörðu. Hérna á stofugólfinu. Beint fyrir framan nefið á honum.

Jú, mögulega myndi hann átta sig á að ekki væri allt með felldu. Svona þegar hann færi að tala fyrir daufum eyrum. Þegar engin væru svörin við hans ó svo mörgu og misgáfulegu spurningum. 

Má ég fá eitthvað að borða? Hvað er í matinn? Ertu að elda? Hvenær ætlar þú að elda? Má ég fá eitthvað að borða? Má fá kók á þriðjudögum þegar pabbi er ekki heima? Ert þú að drekka kók? Hvað ert þú að tyggja? Ertu með nammi? Er til nammi? Hvað eru margir dagar þangað til það kemur nammidagur? Má ég fá eitthvað að borða? Eigum við að spila? Hvað eru margar mínútur þangað til ég á að fara að sofa? En sekúndur? Hvað er klukkan í Kína? Má ég fá eitthvað að borða? Af hverju færð þú að vaka lengur? Borðar þú nammi þegar ég er sofnaður? 

Já. Það eru þrjár vikur síðan sambýlismaðurinn fór. Þrjár. 

Namaste. Innri friður og allt það. 


Snúum okkur aftur að flíkinni. Fallegu, fallegu flíkinni. Eins og hún sé hönnuð með mig í huga. 


Þessi stórglæsilegi kimono er hannaður og saumaður af fyrrum nágranna mínum, hinni afar hæfileikaríku Báru Atladóttur.



Við mæðginin voru í miklu stuði hérna í gærmorgun. Afkvæmið að sjáfsögðu á bak við myndavélina. Lifandi sig inn í ljósmyndarastörfin. Dansaðu mamma, dansaðu. 

Þess má geta að engin var greiðslan fyrir þessa myndatöku. Ég hótaði honum bara að hann fengi engan kvöldmat. Í þrjá daga. 

Svínvirkaði.

Djók.


Ekki nóg með að þessi kimono sé fegurri en nokkuð annað þá er verðmiðinn líka skínandi fínn. Níu þúsundkallar. Fyrir blóm, hlébarðamynstur og undursamlega litadýrð. Selt. Við fyrsta hamarshögg. 

Ég mæli með því að þið gluggið á úrvalið hjá Báru. En, to, tre!

Þess má einnig geta að hún er með opið hús á fimmtudaginn næstkomandi. Í Fífuselinu okkar góða. Þar verður hægt að gera reyfarakaup. Nánari upplýsingar hérna.

Jæja, afkvæmið heimtar kvöldkaffi á milli þess sem hann volar yfir þriggja vikna gömlu sári. 

Namaste.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment