May 26, 2015

Helst í fréttum

Ef ég læt líða fleiri en þrjá daga á milli þess sem ég blogga verður allt ómögulegt. Ég verð ómöguleg. Pirruð. Kvíðin. Ég fer öll að iða. Finnst ég hugmyndalaus. Með greindarvísitölu á við eldspýtustokk. Pirringurinn eykst svo bara. Og eykst. Og nær slíku hámarki að ég verð pirruð við sjálfa mig fyrir það eitt að vera pirruð. Allt út af einhverju bloggi. Þráðurinn verður stuttur. Pirringurinn við suðumark. Ég næ mér ekki niður. Finn ekki rónna eða hvatann til þess að blogga. Algjör vítahringur. Skrýtinn vítahringur. 

Á sjöunda degi bloggleysis hringir mamma yfirleitt. Skammar mig fyrir að hringja aldrei. Þó ég hafi hringt í hana kvöldið áður. Svo spyr hún. Ertu hætt að blogga? Ég verð pirruð. Skelfilega pirruð. Ber fyrir mig að vera í andlegri lægð. Að loknu símtali er ég harðákveðin í að hætta. Að þetta sé komið gott.

Svo ligg ég í rúminu og reyni að sofna. Þá hrekkur allt í gang. Bölvaður heilinn hættir ekki. Hann stílfærir hverja einustu hugsun yfir í bloggfærslu. Gerir mig brjálaða. Og ég hætti við að hætta. Snarhætti.

Þetta er sérkennilegt. Hvernig það getur togast á í mér uppgjöf, einskær vilji til þess að gera gveiga85 bara að góðri minningu. Og svo þörfin fyrir að halda áfram, að gveiga85 sé hluti af mér sem ég geti ekki sleppt svo auðveldlega. Um leið og ég hætti hellist þörfin yfir mig. Þörfin til þess að skrifa. Þó að það sé ekki um neitt sem mögulega getur talist merkilegt. Ég bara þarf. Verð.

Undarlegt.


Ég hef hætt að blogga sjötíu sinnum síðan ég byrjaði. Give or take. Og hér er ég enn. Fer sennilega ekki langt. Verð bloggandi steingervingur. Pissfullur og akfeitur steingervingur. 


Í fréttum er fátt. Ég byrjaði að safna augabrúnum í síðustu viku. Skotgengur. Ég er að brúka einhvern sérlegan vaxtarvökva frá Gosh. Sem ég keypti árið 2013. Jú, allar mínar fjárfestingar gera gagn á endanum. Eins og ég segi sambýlismanninum í sífellu. Sem nota bene er ennþá siglandi á Grænlandsmiðum. Eða einhversstaðar. Sex vikum síðar. 


Þessi kjóll var búinn að liggja inni í skáp með vel vænt gat á rassinum í mörg ár. Eitt kvöldið var ég að kafna úr framtakssemi. Sem er nokkuð óvenjulegt. Ég reif fram nál og tvinna. Stoppaði í gatið eins og ég hefði aldrei gert neitt annað. 


Fleygði mér í kjólinn daginn eftir. Klappaði sjálfri mér á bakið. Hvílik myndarlegheit. Hagsýni og endurvinnsla. Hver þarf ný föt? Ekki ég. 

Ég rúllaði svo til Keflavíkur að dæma í bollakökukeppni. Sat við hliðina á Jóa Fel og fann hvernig mitt eigið handbragð byrjaði að bregðast mér. Svona á milli þess sem ég þefaði af honum. Í laumi. 

Við hverja hreyfingu stækkaði gatið. Við skulum hafa á hreinu að mér finnst einkar óþægilegt að vera í nærbuxum þegar ég skarta þykkum nælonsokkabuxum. Þannig að já. Já. Jájá. 

Þessi saga er svo óþægileg að ég ætla ekki einu sinni að klára hana. Blessunarlega, fyrir bæði mig, Jóa og aðra gesti, var dimmt þarna inni. Að ég held. Meðvitund mín fjaraði eiginlega út á einhverjum tímapunkti. Sykurvíma. Rakspíravíma. Bert rassgat á stól í Keflavík. Þetta var of mikið.

 Ég hljóp svo hratt út í bíl að loknum dómarastörfum að ég sá ekki hvort það var nótt eða dagur. Sumar eða vetur. Vissi ekki hvort ég væri almennt lífs eða liðin. 

Nóg um það. Feikinóg.



Sambýlismaðurinn hringir reglulega þarna frá Grænlandi. Noregi. Færeyjum. Hvar sem hann er. Til þess eins að minna mig á að fara með Yarra í viðgerð. Það straujaði einhver af honum hliðarspegilinn fyrir stuttu. Mögulega gerði ég það sjálf. Get ekki svarið fyrir það.  

Það er jú bæði ólekker og hættulegt að hafa hliðarspegilinn hangandi ónofhæfan á hurðinni. En ég er bara búin að redda þessu. Hjálparlaust. Okkur að kostnaðarlausu. Tjah, einangrunarlímbandið kostaði 990 krónur. Látum það eiga sig. 

Ég get bæði saumað föt og gert við bíla. Hvílíkt kvonfang.

Jæja. Svona vill þetta enda eftir langa þögn. Þá tala ég út í eitt. Kann mér ekki hóf. Get ekki hætt.

Ókei, hætt.

Heyrumst.

1 comment: