Nov 11, 2015

Milljón hlutir á miðvikudegi


Allt í lagi, ekki milljón hlutir. Ekki alveg. Meira svona fjórir hlutir. Það er nærri lagi. Mér hættir til að ýkja, þið vitið. 

Númer eitt. Efst á blaði. Mál málanna. Takk fyrir alla tölvupóstana eftir síðustu færslu. Og skilaboðin. Og snöppin. Bölsýniskonan með örsmáa hjartað felldi jafnvel fáein tár yfir hugulseminni. Bara fáein. Örfá. 

Já, nóg um það. Feikinóg. Almáttugur, ég get grenjað eins og glorhungraður hvítvoðungur stundum. Bara stundum. 

Númer tvö. Ég er ekki hætt að blogga. Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort ég hafi einfaldlega lagst í bólið eftir síðustu færslu. Og sé ekki staðin upp ennþá. En svo er nú ekki. Ég er búin að taka út alla þá angist sem ég þarf. Ég þurfti bara dálítinn tíma fyrir sjálfa mig. Aðeins að týna mig saman. Átta mig á því hvað ég vil. Og hvert ég er að fara. 

Æ, ég er aðeins að ýkja. Já, aftur. Ég er ekki búin að eyða síðustu þremur vikum í að strjúka sjálfri mér blíðlega. Þó ég hafi vissulega gert nóg af því. Ég hef eytt dágóðum tíma í Snapchat undanfarnar vikur. Ehm, með dágóðum tíma á ég við öllum mínum tíma. Svo gott sem. Á milli þess sem ég hef strokið mér. Á viðeigandi stöðum sko. 

Já, Snapchat virðist henta mér ákaflega vel. Af því ég get blaðrað endalaust. Um ekki neitt. Og stendur yfirleitt nokkuð á sama hvort einhver sé að hlusta eður ei. 

Ég áttaði mig samt nýlega á því að þetta ágæta smáforrit er svolítið að stela frá mér blogginu. Af því ég segi allt sem ég þarf að segja þar. Og meira til. Miklu meira. Þannig að ég ætla að finna jafnvægi. Milli snappsins og bloggsins. Ég hlýt að hafa nóg að segja fyrir báða staði. 

Er það ekki?

Jú. Jújú.


Númer þrjú. Gunnarsbrautin er í sögulegri óreiðu. Við erum að flytja. Og mig langar svolítið að reka sambýlismanninn á hol. Eða rispa hann örlítið með flugbeittu vopni. Ekki beint myrða hann. Bara meiða hann. Mjög smávægilega bara. Ekkert alvarlega. 

Hann skrapp austur á rjúpnaveiðar. Fyrir 10 dögum. Fyst sótti hann pappakassa. Grýtti þeim hingað inn. Og óskaði mér góðs gengis við niðurpökkun. 

Áætlað var að hann kæmi heim um helgina. Þegar við flytjum. En hann mun renna í hlað hérna á Gunnars á hverri stundu. Ekki af því ég hef verið með öllu óalandi og óferjandi síðustu 10 daga. Þvert á móti. Ég er ekki þessi týpa sem röflar og ropar þar til hún fær sínu framgegnt. Þið vitið það. 


Brúðkaupsundirbúningur er í blússandi farvegi. Sem er efni í aðra færslu. Von er á henni innan skamms. Ó, já. Hérna að ofan má sjá krukkusafnið mitt. Mér skilst að ekki nokkur maður gangi í það heilaga nema nóg sé af krukkum. Í hverjum krók og kima. 

Ég smellti í krukkusöfnun á Snapchat. Og hér hefur fólk bankað í tíma og ótíma til þess að gefa mér krukkur. Sem er stórkostlegt. Fyrir utan þá staðreynd að ég hugsaði þessa söfnun ekki nema hálfa leið. Ég hef svo sem aldrei verið þekkt fyrir að hugsa lengra en það. 

Ég á enga geymslu. Og hef ekki aðgang að geymslu. Og þetta safn er frekar plássfrekt. Og ég labbaði á það um daginn. Og datt. Ofan á herlegheitin. Alveg kylliflöt. Það var bara bölvuð lukka að ég er í mýkri kantinum og krukkurnar brotnuðu ekki undan mér. Annars væri ég væntanlega dáin. Steindáin. 



Númer fjögur. Síðast en ekki síst. Ég elska súkkulaðið sem fæst í Ikea. Eins og ég hef svo margoft sagt frá. Ég er samt ómeðvitað farin að hamstra þetta helvítis súkkulaði. Af því það er svo déskoti langt úr miðbænum yfir í Garðabæ. Í gærkvöldi þurfti ég að minna mig á að fresta tíma hjá lækni. Á sófanum var súkkulaði. Á símaborðinu var súkkulaði. Á eldhúsbekknum var súkkulaði. 

Ég var fljótari að finna súkkulaði til þess að hnipra á heldur en pappír. Æ, whatever. Poteitó, potató. 

Jæja, ég þarf að taka fagnandi á móti sambýlismanninum. Ehm, fagnandi já. Mjög fagnandi.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment