Oct 20, 2015

Áfram veginn



Ég hef alla tíð leitast við að vera hreinskilin hérna á blogginu. Fegra hlutina ekki um of. Eftir fremsta megni hef ég reynt að vera einlæg. Sem hefur kannski ekki alltaf tekist hérna í hörðum heimi internetsins. En þið vitið, ég reyni.

Takmark mitt hefur verið að vera manneskjuleg. Eðlileg. Ókei, ég verð sennilega aldrei talin sérstaklega eðlileg. Jæja. Ég hef í það minnsta haft það að leiðarljósi að vera einhver sem fólk getur samsamað sig við. Engar glansmyndir. Ekkert kjaftæði. Svona oftast.

Sem bloggari hef ég aldrei haft neitt sérsvið. Nema kannski kaldhæðni og kjánalæti. Og kaupsýki á köflum. Annars hef ég tekið dansspor á öllum sviðum. Förðun, matur, tíska, móðurhlutverkið, heimilið - nefndu það, ég hef tekið fáein dansspor. Skrifað misáhugaverðar færslur. Um allt og ekkert. Í heil þrjú ár. 

Mikið af skrifum mínum eru af persónulegum toga. Sama hvað ég skrifa um. Mér tekst yfirlett að troða hvers kyns persónulegum upplýsingum eða sögum inn í öll mín skrif. Stundum þykir fólki í kringum mig nóg um. Sumum finnst ég jafnvel segja of mikið. Að ég sé of persónuleg. En það er allt í lagi. Það mega allir hafa sína skoðun. Það er þó ég sem er við stýrið. Ég ræð. 

Ég líka þurft að læra að ég er ekki allra. Og sætta mig við það. Sem tók mig langan tíma. Óþolandi þetta helvítis skoðanafrelsi. 


Gott og vel. Hvað um það. Í þrjú ár hef ég skrifað um bæði sorgir mínar og sigra. Hæðir og lægðir. Lífið eins og það leggur sig. Þessi sneið mín af internetinu er því eiginlega orðin órjúfanlegur hluti af mér. Þess vegna þarf ég alltaf að skrifa um það þegar dregur til tíðinda í mínu lífi. Sama hvort tíðindin eru góð eða slæm. Stór eða smá. 

Mér finnst líka gott að skrifa mig frá hlutunum. Horfa á þá á blaði. Eða skjá. Og hætta að velta þeim um í höfðinu á mér. Ef svo má að orði komast.

Ókei, núna haldið þið sennilega að ég sé ólétt. Jafnvel að einhver sé dáinn. Nú eða að þið eruð löngu hætt að lesa af því ég er alltaf góðan klukkutíma að koma mér að efninu. 

Jæja. Here goes.

Ég missti vinnuna. Eða er að missa hana. Vegna ástæðna sem ég kem ekki til með að útlista nánar hér. Og viðbrögð mín við því hafa verið önnur en mig óraði fyrir.

Þetta átti sér stað fyrir tæpum mánuði. Ég vissi alveg í hvað stefndi. Eða hluti af mér hafði lúmskan grun. Og var ég handviss um að ég tæki þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Onwards and upwards, þið vitið. Ekkert mál. Ég er svo mikill nagli. Jújú. Einmitt.

Nei. Ekki alveg. Það hefur farið lítið fyrir naglanum í októbermánuði. Í fyrstu grenjaði ég. Ógeðslega mikið. Svo varð ég reið. Alveg bálreið. Síðan ætlaði einhverskonar höfnunartilfinning mig lifandi að drepa. Gjörsamlega steindrepa. Ah, svo var það skömmin já. Helvítis skömmin. Hún gerði aldeilis vart við sig líka. Þessu skyldi enginn fá að komast að. Aldrei. Nema kannski mínir allra nánustu.

Í gærkvöldi lá ég svo hérna í sófanum. Í einhverja fjóra klukkutíma. Í svakalegasta kvíðakasti sem ég hef fengið. Á tímabili hélt ég að ég væri að fá snert af taugaáfalli. Ef það er mögulegt. Þegar ég náði loks að henda reiður á hugsunum mínum þá helltust yfir mig allar þessar tilfinningar. Tilfinningar sem höfðu reglulega skotið upp kollinum síðustu vikur. En ég bægt jafnóðum í burtu. Og haldið áfram að vera hress. Hrikalega hress.

Þetta eru augljóslega tilfinningar sem ég þarf að gera upp. Og hefst uppgjörið með þessum skrifum. Ég veit að þannig verður þungi fargi af mér létt. Þetta er líklega ekki stærsta áfall sem ég á eftir að verða fyrir á lífsleiðinni. Ég veit það vel. Það er engu að síður vont að líða svona. Vont að úthúða sjálfri sér í sífellu. Vont að skilja ekki af hverju manni líður eins og hráka á Laugaveginum.

Ég er samt ennþá að reyna að skilja af hverju mér hefur liðið svona. Af því nú hef ég engar stórkostlegar áhyggjur af framtíðinni. Þannig séð. Ég á 38492 drauma sem ég á eftir að eltast við. Doktorsnám sem mig langar að klára. Mögulega eru fleiri námsleiðir þarna úti sem ég hef augastað á. Ein eða tvær. Eða fjórar. Ræðum það síðar.

Ah, þetta var gott. Þungt farg og allt það.

Onwards and upwards.

Heyrumst.

9 comments:

  1. Það sem ég fíla best við skrif þín er einmitt kaldhæðnin, heiðarleikinn og þessar örlitlu ýkjur sem ég leyfi mér að ætla að séu til staðar sko. Líka þær færslur sem stundum dansa á línunni á milli tmi og dauðans alvöru (t.d. brjóstalímið). Haltu áfram að skrifa og deila með alheiminum

    ReplyDelete
  2. Mèr finnst þù brjàlæđislega skemmtileg og finnst ofur gaman ađ fylgjast međ þèr à snappinu. Takk fyrir ad skrifa þessa færslu, èg stend í sömu sporum og er ad upplifa sömu tilfinningar...hèlt ég væri ein um þær en "gott" ađ sjà ađ svo er ekki. Takk fyrir ađ vera þù og gangi þèr vel á þessum tímamótum

    ReplyDelete
  3. Takk fyrir að vera einlæg og manneskjuleg í skrifunum þínum, þér ferst það afar vel úr hendi, þú ert ein af mínum uppáhalds. Að ég tali nú ekki um snappið. Útiloka ekki að ég hafi tárast úr hlátri yfir gallabuxunum í frystinum og ásökunum á nágrannann. Þú lífgar upp á hversdagsleikann hjá svo ótrúlega mörgum :)

    Ég lenti í því sama og þú á svipuðum tíma meira að segja, svo ég er líka að ganga í gegnum þetta þessa dagana, hamingjan sem þetta er, eða þannig. Hrærigrautur af alskonar erfiðum og sárum tilfinningum og sjálfsásökunin og niðurrifið í toppi. Það hlýtur jú að vera eitthvað að manni sjálfum (sem er auðvitað alls ekki málið). Á meðan er ég samt á fullu í því að sannfæra fólkið mitt um að það sé sko alveg allt í lagi með mig. Ég er bara fín fyrir utan jú þetta "smáatriði", set svo upp grínatriði og flissa passlega mikið.

    Þetta varð óvart miklu lengra en þetta átti að vera en oh well. Mig langaði mest bara að hrósa þér fyrir að skrifa þessa færslu, það þarf kjark til þess að varpa svona út í alheiminn. Áfram þú, þetta er alveg örugglega upphafið að einhverju stórkostlegu :)

    ReplyDelete
  4. Amen... og til hamingju með fyrsta skrefið (og það erfiðasta) :)
    Klárlega ekkert nema uppávið héðanífrá (Y)

    luv, Svanhildur B (hin Svanhildur-in greinilega ;) )

    ReplyDelete
  5. Hef staðið í þessum sporum og það var mjög erfitt, enn ég get sannarlega sagt þér að þegar einar dyr lokast, opnast aðrar :-D mér finnst þú alveg hrikalega skemmtileg, gjörsamlega elska snappið þitt. Gangi þér vel og ekki efast um sjálfa þig.

    ReplyDelete
  6. læk, love, senda út í alheiminn á vindasömum degi (þegar enginn hlustar) : reddaðu mér einhverju góðu núna... og aldrei að vita nema það bara gerist. Erfitt þangað til samt. gó girl.

    ReplyDelete
  7. Það verður slegist um þig á vinnumarkaðnum. Svo fyndin og yndisleg :)

    ReplyDelete
  8. Ekki hætta að blogga! :D

    ReplyDelete