Frá janúar fram í maí miðaðist allt okkar líf við að vinna og safna fyrir þriggja mánaða dvöl og spænskuskóla á Tenerife. Það var fátt annað sem komst að.
Þann 19.maí 2012 rann loksins hinn langþráði dagur upp.
Ferðin hófst með tveggja daga dvöl í London. Þrátt fyrir að hafa dvalið nánast við hliðina á Gatwickflugvelli sem er lengst frá öllu almennilegu mannlífi tókst mér samt sem áður að þefa upp H&M. Sambýlismanninum fannst mjög skemmtilegt að ég skyldi hefja þriggja mánaða ferðalag á svæsinni verslunarferð.
Syninum leiddist lítið þetta sumarið.
Ég gekk verulega á kartöflubirgðir heimsins með frönskuáti. Helvítis franskar. Franskar kartöflur tvisvar á dag í þrjá mánuði er ekki eitthvað sem ég mæli með. Rassinn á mér mun aldrei bíða þess bætur.
Nachos. Bölvað nachos-ið. Þetta var kvöldsnarlið. Minnst þrisvar í viku. Mér brá samt alveg agalega þegar ég kom heim sjö kílóum þyngri en ég var þegar við fórum út.
Fjallmyndarlegur. Eins og móðir sín.
Lífið var ekkert rosalega erfitt.
Ég var brún. Ógeðslega brún. Núna er ég svo hvít að ég nánast glói í myrkri.
Við studdum vel og vandlega við spænska hagkerfið með vínkaupum. Það mátti að sjálfsögðu ekki ofþorna í hitanum. Það eru engar ýkjur að við drukkum líklega mun meira af víni heldur en vatni þessa þrjá mánuði.
Við fórum út að borða 89 kvöld í röð. Ég eldaði eitt skipti. Það vildi engin borða eggin mín né bökuðu baunirnar. Nema ég. Þannig að við tókum þá ákvörðun að það væri líklega best að fara bara út að borða á hverju kvöldi.
Þann 10.ágúst voru síðustu hvítvínsglösin á Tenerife sötruð.
Það var hræðilega erfitt að segja bless við alla sem við kynntumst. Ég var óhuggandi í tvo daga. Eða alveg þangað til ég komst í fríhöfnina á Íslandi og gat farið að versla mér vín og snyrtidót.
Dásamlegt ár að baki. Sumarið stendur svo algjörlega upp úr að ég nenni ekki einu sinni að leita af myndum sem teknar voru á öðrum tímum. Mér þykir nokkuð líklegt að við kíkjum í heimsókn til Tene árið 2013. Bara smá heimsókn. Sjöunda sumarið í röð.
Ég er bara svo hrædd um að spænska hagkerfið bíði þess ekki bætur ef að ég birtist ekki til þess að styrkja það að minnsta kosti einu sinni á ári.
Ég hef góða tilfinningu fyrir 2013. Mjög góða.
No comments:
Post a Comment