Oct 3, 2015

Í pylsubrauði


Það eru margir kostir við hleypa fólki inn á Snapchat. Mjög margir. Ég fæ til dæmis mörg snöpp úr ýmsum áttum. Aðallega af mat. Furðulegum mat. Og súkkulaði sem keypt er í Ikea. Að vísu fæ ég svolítið af vídjóum líka. Af börnum. Ókunnugum börnum. Sem er skrýtið. Og mér líður eins og stórglæpamanni þegar ég horfi á slík myndbrot. 

Um daginn var ég að borða einhverskonar túnfiskkássu. Með kotasælu. Eplum. Lauk. Og kartöflukryddi. Að venju var ég að blaðra eitthvað á Snapchat á meðan ég sat að snæðingi. Sem ég geri orðið alltof mikið af. Eftir að sambýlismaðurinn fór. Og ég hef engan til þess að tala við. Nema átta ára gamalt afkvæmi. Sem virðir mig yfirleitt að vettugi.  

Jæja, hvað um það. Að loknu túnfiskkássuáti fékk ég sendar ýmsar hugmyndir. Sem sneru að því hvernig snæða mætti túnfisk. Þar á meðal var þessi stórkostlega tillaga. Sem kom frá Elínborgu vinkonu minni. Sem er matgæðingur og snillingur. 

Túnfisksalat. Pylsubrauð. Og Ritzkex. 



Nei, túnfisksalat myndast aldrei vel.


Byrjum á því að búa til túnfisksalat. Eða kaupa það. Hvað sem fleytir ykkar bát. 

Opnið eitt stykki pylsubrauð upp á gátt. Og verið með fallegt naglalakk. Alltaf.


Fyllum brauðið vel af salati. Troðum í það.


Röðum fáeinum kexkökum ofan í.



Ó, boj. Brakandi gott sko. Alveg brakandi. Kexið gefur þessu ómótstæðilegt krönsj. 

Mjúkt brauð. Vel majonesað salat. Brakandi saltað kex. 

Mmm. 

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

1 comment:

  1. http://www.marthastewart.com/1043862/bacon-jam mæ ó mæ hefurðu séð þessa uppskrift?

    ReplyDelete