Ég er alltaf svöng og mig langar alltaf í eitthvað gott. Merkilega óþolandi andskoti. Ef ég er ekki að borða þá sit ég og hugsa um hvað ég get mögulega fengið mér að borða.
Á meðan ég sit að snæðingi er ég síðan iðulega að skipuleggja næstu máltíð og passa að borða ekki yfir mig svo ég hafi nú örugglega pláss fyrir hana. Guð jú forði mér frá því að missa úr eina máltíð. Það væri agalegt.
Allavega. Mig langaði samkvæmt venju í eitthvað gott í kringum miðnætti í gærkvöldi. Ég borðaði poka af ostapoppi í kvöldmat þannig að það varð ekki fyrir valinu. Aldrei slíku vant.
Ég náði mér í þetta fallega epli. Tilhugsunin um að bíta í það eintómt gerði ekkert fyrir mig.
Ég fjarlægði miðjuna úr því.
Ó, já. Hér í Breiðholtinu var öllu tjaldað til seint í gærkvöldi. Forlát rjómasprauta rifin fram og fyllt af hnetusmjöri sem síðan fór inn í eplið.
Þessari sögu lýkur ekki hér. Nei. Hún er ekki hálfnuð.
Ég á auðvitað fulla skúffu af trépinnum. Enda kaupi ég aldrei bara einn bakka af sushi þó ég sé ein í mat. Einn bakki - það er nú varla upp í nös á ketti.
Stingum pinna þvert inn í eplið. Ekki í gegn.
Ah, Butterscotch dropar. Það eru engin orð yfir þetta sælgæti. Engin. Þetta er fáanlegt í Kosti og Hagkaupum held ég líka.
Í pott við mjög vægan hita.
Söxum væna lúku af M&M á meðan droparnir bráðna.
Smyrjum eplið vandlega. Lyktin af þessu er svo góð að manni langar að troða andlitinu ofan í pottinn. Nú eða hreinlega reyna að setjast ofan í hann.
M&M stráð yfir og inn í ísskáp í dálitla stund.
Guð á himnum. Þetta var agalegt. Ég dó úr nautn í fáeinar mínútur.
Ég hafði þau plön um áramót að vera orðin mjó í maí. Þeim plönum hefur hér með verið slegið á frest.
Heyrumst.
"ég dó úr nautn í fáeinar mínútur" = þetta er nýja svarið mitt eða slagorð þegar ég er að lýsa einhverju dásamlegu héðan í frá. Takk fyrir það :*
ReplyDeleteÞetta er mjög girnilegt, er að hugsa hvað ég gæti sett í staðinn fyrir hnetusmjörið (verður að vera fylling í eplinu.)
:)
Heiðdís
Datt inná bloggið þitt í gegnum smartland (twixpoppið). Vá hvað þetta er GIRNILEGT. Fyrst hélt ég að þú ætlaðir bara að fá þér epli með hnetusmjöri.
ReplyDeleteVerð að prufa þetta, og fást þessir dropar í alvöru í Hagganum??? Er búin að vera með blæti fyrir þeim lengi en hélt þeir fengjust ekki á ísl.
kv. Margrét
Ég hef séð þá þar já! Annars alveg bókað í Kosti. Þessir dropar - já. Engin orð!
DeleteJæja, ef þeir eru ekki í Hagkaup þá kaupi ég þá næst þegar ég fer suður. Slef.
DeleteMér þykir einstakt að skoða bloggið hjá þér og það sem þú lætur þér detta í hug.
ReplyDeleteÉg hef mikinn áhuga á bragði og hvað það er sem gerir bragðið, eins og Worcestershire-sósusletta í brúna sósu gerir ALLT!
Við lestur þessarar greinar mundi ég þegar ég bjó í Kanada og komst að því að allt sælgæti þar er ógeðslegt því það er svo mikill sykur í því, meiri en hérna. Nema gömlu tegundirnar, eins og butterfingers, reese's cups og fleira. Ég fann til að mynda eitthvað sem var kallað clodhoppers ( http://en.wikipedia.org/wiki/Clodhopper_(candy) ) og er ávanabindandi sykurheróín sem ég kemst aldre aftur í því það er ekki flutt inn hér. Butterscotch var til að mynda notað mikið í bakaríum þar í landi, butterscotch krem á kökur var sérdeilis spennandi en það sem mér fannst skemmtilegast, var þegar ég ákvað að prófa mig í gegnum allar bragðtegundir rjómaíss en þær voru um 80 í búðinni sem ég verslaði við. Bestur fannst mér sá sem var með tveimur sherbet röndum í gegn svo og annar sem var lagskiptur í 7 lög minnir mig sem: ís - butterscotch - ís - butterscotch - ís - butterscotch - ís en ég átti til að fá ógeð og þurfa að klára hann seinna.
Svo ég komi aftur inn á 'brögðin' og rætur sérstakra 'bragða' sem gefa ákveðið bragð í einföldum sykurmassa, þá ákvað ég að gúgla butterscotch og mér til furðu er það víst framleitt úr sykri og smjöri 50/50 en svo leitaði ég lengra og fann að það er Treacle ( http://en.wikipedia.org/wiki/Treacle ) sem er bætt út í sem gerir þetta ónefnanlega, geðveika ávanabindandi butterscotch bragð, líklegast ásamt smjörinu.
Ég bið þig að afsaka hversu langt þetta er, ég hef bara svo gaman af matarpervertum og hvað þeir eru að gera :)
Snorri Örn Kristinsson