Dec 15, 2014

Óskalistinn minn.


Minn jólagjafalisti er ekki mjög langur. Aðallega vegna þess að ég veit aldrei hvað mig langar í. Og allir sem ég þekki segja að ómögulegt sé að gera mér til hæfis. Ég er heldur ekki stórkostlega hrifin af því að safna í búið á meðan ég lifi og hrærist á helvítis leigumarkaðnum. Allra helst vil ég bara eiga föt, fullt af bókum og góðan stað undir vínið mitt. 

1. Isabella frá Andreu. Þessi kjóll. Ó, þessi kjóll. Stundum kemur hann til mín í draumi. Hvíslar blíðlega að mér. Biður mig að kaupa sig. Segir mér að ég muni líta út eins og drottning í honum. Sem er hárrétt. Ég mátaði hann í dag. Ég var eins og drottning. Ég ætla ekkert að skafa af því. Eins og drottning segi ég.

Svo talaði ég við mömmu. Minnti hana góðfúslega á að ég útskrifast í febrúar. Verð þrítug í apríl. Það eru að koma jól. Hún kallaði mig rellara. Samkvæmt henni get ég rellað út í eitt. Rellað já. ,,Hættu þessu relli Guðrún Veiga."

Rellið hefur reyndar nýst mér fjári vel í að verða þrjátíu ár. Sjáum hvað setur.

2. Púði úr Ikea. Ég elska hann. Geng framhjá honum vikulega. Ég eyði 3000 krónum mjög reglulega í óþarfa. Tími ég að kaupa þennan púða? Nei. Það er af því að ég vil eiga þrjá. Einn undir hausinn. Einn undir hnéin. Og einn í fangið. Sko þegar ég ligg og horfi á sjónvarpið. 

3. Bjórbókin. Svo hefði ég helst viljað svona bjórdagatal líka. Ég var mjög svekkt hérna í byrjun desember. Endalausar myndir af slíkum dagatölum á samfélagsmiðlum. Bara frá karlmönnum. Konur vilja líka bjór. Ég vil bjór. Ég elska bjór. 

4. Yes Please eftir Amy Poehler. Ég elska hana meira en bjór. 

5. Vínkúturinn frá Fiduz. Pokinn er fjarlægður úr beljunni og settur í kútinn. Svo miklu meira lekker en að drekka vín úr pappakassa. Hann heldur líka köldu. Ég vil rauðvínið kalt. Ekki skemmir þessi litur fyrir. Gulur eins og sólin. Ég elska gulan.

6. Is Everyone Hanging Out Without Me? eftir Mindy mína Kaling. Fyrirmyndina. Konuna sem lætur mig efast um kynhneigð mína. Ég bara elska hana. Meira en Amy Poehler, bjór og gulan. Ef þið hafið ekki nú þegar séð þættina The Mindy Project þá skuluð þið leggjast í niðurhal med det samme. Löglegt niðurhal að sjálfsögðu. Jájá. 

Fleira þyrstir mig ekki í þessi jólin. Að ég held. Nema kannski nammi. Lindor-kúlur. Allar tegundir. Og þykka peysu. 66° lúffur. Fallegan tertudisk. Og frið á jörð.

Heyrumst.

1 comment: