Dec 17, 2014

Bestu kökurnar.


Uppáhalds smákökurnar mínar eru mömmukökur. Nenni samt ekki að baka þær. Ég mikla það alveg agalega fyrir mér að búa til smjörkrem og smyrja því á óteljandi kökur. Búa til samlokur. Voða vesen. Ég ét líka alltaf svo mikið af eintómu kreminu að það dugir ekki til. Þá þarf ég að fara að búa til meira. Djöfulsins bras sko.

Ég á hins vegar mína velgjörðarmenn sem ég færi ávallt tóman dunk fyrir hver jól. Dunkinn fæ ég síðan til baka sneisafullan af  himneskum mömmukökum. Mjúkum, ilmandi og unaðslegum. Sem ég borða upp til agna. Án þess að gefa með mér.


Þessar kökur eru einnig í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær eru úr kökublaði Gestgjafans frá árinu 2010. Þetta er því fimmta árið sem ég galdra þær fram úr erminni. Ferlega einfaldar og algjört hnossgæti. Eins og allt sem er með dálitlu hafrabragði. Mmm.

Hafrakökur með rúsínum & súkkulaði:

300 gr hveiti
375 gr sykur
150 gr haframjöl
1 tsk matarsódi
240 gr smjörlíki
2 dl rúsínur
125 gr suðusúkkulaði, saxað
2 egg
100 gr brætt súkkulaði, til skrauts


Blandið öllum þurrefnum saman og myljið smjörlíki út í. Hnoðið vel saman. Bætið rúsínum, súkkulaði og eggjum í skálina. Blandið vel. Búið til litlar kúlur úr deiginu og þrýstið á ofnplötu klædda bökunarpappír.

Ekki smakka deigið. Heilræði frá mér. 



Bakið kökurnar við 200° þangað til þær verða ljósbrúnar að lit. Kælið. Bræðið gott súkkulaði. Slettið yfir.



Mjólkurglas og tvær kökur. Fjórar samt helst. Mér skilst að það sé ljúffeng blanda. Ég drekk hins vegar ekki mjólk. 

Pepsi Max og fjögur stykki fyrir mig. Namm.

Heyrumst.

5 comments:

  1. Hvaða súkkulaði notarðu ofan á? :)
    Kveðja
    Henný

    ReplyDelete
  2. Ég notaði ljósan hjúp frá Nóa Síríus á þessar.

    ReplyDelete
  3. Má ekki sleppa helv... rúsínunum???
    Luv
    næstumþvísystirþín :)

    ReplyDelete
  4. ...já og setja bara meira súkkulaði í staðin ;)

    næstumþvísystirþín ...aftur ;)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Piff jú! Þessar helvítis rúsínur eru með öllu óþarfar. Áfram meira súkkó!

      Delete