Dec 28, 2014

Fyrir áramótaboðið.


Jæja, hvað höfum við hérna? 

Tvær brakandi ferskar blöndur fyrir gamlárskvöld. Hver hefur svo sem lyst á bjór þegar búið er að stúta þriggja rétta máltíð og að minnsta kosti þremur snakkpokum yfir skaupinu? Jú og unaðslegum karrítartalettum að hætti mömmu? Ekki ég. Tjah, ég myndi auðvitað drekka bjórinn ef hann væri það eina í boðinu. Láta mig hafa það. 

Allavega.

Þessar mixtúrur eru einstaklega ljúffengar. Og stórkostlega hentugar í vel kýlda vömb.


Sangría:

1 flaska af góðu rauðvíni
1-2 skot af gini
½ líter engiferöl
½ líter appelsínusafi
Smá sykur - best að smakka sig til
Sprite eftir smekk
Nóg af appelsínum, sítrónum og lime

Blandið öllum vökva saman. Sykrið eftir smekk. Smakkið, smakkið og smakkið. Ef ég hef nægan tíma til þess að bardúsa við blönduna þá sker ég niður ómælt magn af ávöxtum og legg þá í rauðvíns-, sykur-, og ginbleyti í góða 4 klukkutíma. Það gerir bragðið af sangrínunni svo miklu betra. 

Ávextirnir verða að vísu bráðdrepandi. Whatever.


Hvítvínssangría:

rúúúmlega ½ flaska af hálfsætu hvítvíni 
1 skot af ferskjulíkjör (má vel sleppa því)
1 bolli engiferöl
perusíder
sprite
lime
kantilópumelóna
ananas
jarðaber
frosin hindber
myntulauf

Hellið víninu og líkjörnum í könnuna. Skerið niður melónu, ananars og jarðaber. Setjið út í vínið ásamt frosnu hindberjunum. 

Ég nota ekki klaka í þessa sangríu – set bara þeim mun meira af frosnum berjum í ýmsum útgáfum. Kreistið hálft lime út í og skerið hinn helminginn í sneiðar sem einnig fara í könnuna. Tætið slatta af myntulaufum og bætið þeim við. Fyllið síðan upp í með Sprite og perusíder í jöfnum hlutföllum.

Glettilega góðar blöndur. Báðar tvær. Lofa.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment