Líf mitt er röð vandræðalegra atvika. Seinheppni, vesen og vandræðalegheit er eitthvað sem ég fékk í vöggugjöf og er orðin ansi hreint sjóuð í.
Ég skoppaði létt á fæti út úr vinnunni áðan. Á bílastæðinu hafa undanfarið verið einhverjir smiðir að bardúsa. Einn og einn myndarlegur inn á milli - ekki það að ég hafi veitt því sérstaka athygli og farið óvenju mikið máluð í vinnuna undanfarið. Alls ekki.
Ég var að valsa í öllum mínum þokka yfir bílastæðið áðan þegar einn vindur sér að mér og fer að ræða við mig um stöðina. Hvenær hún fari í loftið og hvernig gangi. Ég stend þarna á spjalli við hann, flissandi, sveiflandi hárinu og svona - þið vitið, eins og maður gerir. Á meðan ég er að blaðra er ég með höndina ofan í töskunni minni að fiska upp bíllyklana.
Ég næ taki á lyklakippunni eftir gott grams, held í einn lykilinn og byrja að klóra mér á kinninni með honum. Maðurinn hættir skyndilega að tala og horfir bara á mig. Á því augnabliki finn ég að það er ekki bara lykill að strjúkast upp við andlitið á mér. Nei. Það er eitthvað annað að þvælast þarna líka.
Ó, já. Ég veiddi brók upp úr töskunni minni ásamt lyklakippunni. Þarna flagsaði hún bara eins og fallegur fáni í vindi. Í andlitinu á mér og nánast í andlitinu á honum líka. Mér varð auðvitað svo mikið um þegar ég áttaði mig á hvað væri að eiga sér stað að ég byrjaði að reyna að hrista brókina af lyklakippunni. Það skilaði mér litlu. Í öllum látunum flaug hún loks af kippunni og á skóinn hjá vesalings manninum.
Á þessu andartaki dó stór hluti af mér þannig að atburðarrásin er hálf móðukennd. Ég held að ég hafi hrifsað nærbuxurnar mínar af götunni og hlaupið í burtu.
Jæja. Ég hugga mig við að þetta eru fallegar nærbuxur. Hlébarðamynstraðar og fínar. Hreinar líka. Svo því sé haldið til haga.
Þær voru einungis meðferðis af því ég var að fara til læknis eftir vinnu. Lykilatriði að fara í hreinum nærfötum til læknis. Algjört. Það er samt ekkert að mér sko, þarna niðri neitt. Oj bara.
Jesús, ég er hætt.
Heyrumst.
HAHAHAHAHA ég hló mjög mikið !!
ReplyDelete-Svanhildur
bwhahahaha ég var í krampakasti hérna niðrí flytjanda á reyðarfirði
ReplyDeleteÉg var að prófa að búa til gif. Datt í hug að þér myndi líka það;)
ReplyDeleteNjóttu - ég naut ;)
http://lineofdays.tumblr.com/post/89254347624/18th-of-june-day-169-peanut-butter-jam-and
Gangi þér vel með þáttinn þinn - virkilega gaman að fylgjast með velgengni þinni!
Takk fyrir mig.
Mmmm!
DeleteTakk fyrir að lesa**