Það má finna mig að minnsta kosti vikulega í búðinni hjá Rauða krossinum í Mjóddinni. Eins og ég hef jú margoft sagt ykkur frá.
Ég hef sýnt ykkur ófáar gersemar þaðan og er hvergi nærri hætt. Ég ráfaði þar inn í gær og hafði tvennt á brott með mér.
Þessi fíni fíni jakki flutti búferlum úr Mjóddinni í Seljahverfið. 1000 krónur íslenskar. Ekki ósvipaður klæðum sem prýða margar búðir þessa dagana. Sá einmitt einn keimlíkan á 8990 í ónefndri búð fyrir helgi.
Þetta fallega uppháa pils eignaðist einnig nýtt lögheimili. Það er að vísu fjári þröngt. Ég var orðin álíka blá og það á litinn að lokinni myndatöku. En ég fór samt í spinning í gær og hef ekki bragðað hnetusmjör í átta klukkutíma. Það mun smellpassa fyrir helgi.
Kostaði líka þúsundkall. Bara einn lítinn þúsundkall.
Allt í lagi - af því ég er svo ótrúlega hagsýn í fatainnkaupum þá veitti ég mér auka fjárveitingu til fylgihlutakaupa. Eða eitthvað. Hvað er eitt hálsmen á milli vina?
Æ, það er bara svo fínt og passar við allt. Það fæst hérna.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment